
Verkið In the Light of Air eftir Önnu Þorvaldsdóttur er í fjórum þáttum sem nefnast Luminance, Serenity, Existence og Remembrance.
Verkið myndar flæði frá einum þætti til annars í gegnum hljóma og hljóðefni og byggir m.a. á þeirri hugmynd að hver hljóðfæraleikari sé einleikari í stærra samhengi samspilsins. Þannig skiptast hljóðfæraleikararnir á við að sinna hlutverkum einleikara og meðleikara.
Verkið inniheldur ljósainnsetningu sem er hönnuð og unnin í samvinnu við International Contempory Ensemble og stýra hljóðfæraleikararnir lýsingunni beint í gegnum hljóðfæraleik sem og andardrátt.
Þá hefur Anna hannað innsetningu gerða úr málmskífum sem kallast Klakabönd. Klakaböndin eru hönnuð af Svönu Jósepsdóttur.
ICE sérhæfir sig í flutningi nútímatónlistar, allt frá einleiksverkum að stórum samspilsverkum. Hlutverk hópsins er í senn að vera leiðandi afl í flutningi nútímatónlistar, að leita skapandi leiða til að sækja nýja áheyrendahópa nútímatónlistar, sem og að sinna kynningar- og kennslustarfi á sviði nýrrar tónlistar.
In the Light of Air var pantað af hópnum og er hér um að ræða frumflutning verksins.