Quantcast
Channel: Miði.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 2696

Kammersveitin í 40 ár - Listahátíð í Reykjavík 2014

$
0
0
Mynd

Kammersveit Reykjavíkur fagnar um þessar mundir fjörutíu ára afmæli sínu. Í gegnum tíðina hefur hún verið tíður gestur á Listahátíð í Reykjavík og margir minnast enn tónleikanna á Listahátíð 1980 þegar tímamótaverkið Pierrot lunaire eftir Arnold Schönberg hljómaði í fyrsta skipti á Íslandi í flutningi Kammersveitarinnar og Rutar Magnússon, undir stjórn Pauls Zukofsky.  Í tilefni afmælisins verður verkið um Pétur í tunglinu nú flutt á nýjan leik, að þessu sinni með Hönnu Dóru Sturludóttur sópransöngkonu í aðalhlutverki og Bernharð Wilkinson við stjórnvölinn, en einnig mun vídeólistamaðurinn Valerij Lisac leggja sitt af mörkum til þess að upplifun tónleikagesta í Norðurljósasal Hörpu verði einstök.

Þegar verkið um Pierrot lunaire var frumflutt í Berlín fyrir rúmri öld hafði það mikil áhrif á tónlistarheiminn, enda tvírætt og heillandi. Schönberg lætur söngkonuna flytja ljóð Alberts Giraud með „Sprechstimme“ mitt á milli talmáls og söngs á áður óþekktan hátt og sagt hefur verið að þungamiðja verksins liggi einhversstaðar á milli íróníu og harmleiks, kabaretts og sturlunar. Verkið hefur veitt tónskáldum um allan heim innblástur og hafa mörg verk verið skrifuð fyrir „Pierrot-ensemble“, þ. e. sömu hljóðfæraskipan og í verki Schönbergs. Atli Heimir Sveinsson, eitt mikilvirkasta tónskáld Íslendinga, hefur nú samið tónverkið Hér vex enginn sítrónuviður, sem byggir á úrvali ljóða úr samnefndri ljóðabók Gyrðis Elíassonar og verður við þetta tækifæri frumflutt af Hönnu Dóru og Pierrot-hópi Kammersveitarinnar ásamt Benedikt Gylfasyni, drengjasópran, og slagverksleikaranum Frank Aarnink.

Pierrot-hópinn skipa Áshildur Haraldsdóttir á flautu og pikkolóflautu, Rúnar Óskarsson á klarínett og bassaklarínett, Anna Guðný Guðmundsdóttir á píanó, Una Sveinbjarnardóttir á fiðlu og víólu og Hrafnkell Orri Egilsson á selló.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 2696