
Bandaríski tónlistarmaðurinn Kelly Joe Phelps er væntanlegur hingað til lands í apríl nk. Þetta verður í fyrsta sinn sem Kelly Joe treður upp sem sólólistamaður hér á landi og því er um einstakt tækifæri að ræða fyrir tónleikaþyrsta Íslendinga.
Kelly Joe Phelps þykir einn merkasti kassagítarleikari sem uppi hefur verið og á merkilega sögu að baki. Hann gat sér gott orð í hinni víðfrægu tónlistarsenu Portland í Oregon-fylki í djassheiminum á níunda áratugnum.
Það var svo upp úr 1991 sem Kelly Joe ákvað að gerast sólólistamaður. Fyrst um sinn lék hann á kassagítar í kjöltustíl - slidegítar - og söng. Vakti hann mikla athygli fyrir gríðarlega færni á gítarinn og óx sem söngvari með hverju árinu.
Þaðan lá leið hans yfir í hefðbundinn kassagítarleik og á tímabili bætti hann við sig hljómsveit.
Kelly Joe hefur ætíð haft mikla þörf fyrir að vera í stöðugri endurnýjun og kanna nýjar slóðir í sköpun sinni. Hann á níu sólóplötur að baki sem spanna vítt svið. Á þeirri nýjustu, Brother Sinner & The Whale, kveður við skemmtilegan tón og má segja að hún sameini allt það besta sem Phelps hefur boðið upp á rúmlega 20 ára ferli. Slidegítarinn er á sínum stað, sálarríki söngurinn og tilfinningaríka textagerðin. Hann laumar sér úr þjóðlagapoppskotnum lögum yfir í grimman blús og kántrí sem og allt þar á milli.
Þessi mikli listamaður leggur mikið upp úr því að tónleikarnir séu ekki síður mikil upplifun fyrir hann sjálfan eins og þann sem leggur við hlustir. Það er því ávallt stutt í að hann gæði tónlistina nýju lífi með spuna og annarri tilraunamennsku.
Kelly Joe Phelps mun leika á tvennum tónleikum í Reykjavík. Þá liggur leiðin í Hafnarfjörð, þaðan vestur á firði - nánar tiltekið í Sjóræningjahúsið á Patreksfirði. Síðan er það kirkjan fagra í Stykkishólmi og loks Salthúsið í Grindavík áður en kappinn heldur af landi brott og heiðrar aðra Evrópubúa með nærveru sinni.
Það er íslenski tónlistarmaðurinn Smári Tarfur sem hitar upp en hann vinnur nú að sinni fyrstu sólóplötu sem vænta má með haustinu.