Alþjóðlegt orgelsumar, hinir vinsælu sumartónleikar í Hallgrímskirkju, standa frá 18. júní til 21. ágúst þetta árið. Einu sinni í viku heldur kammerkórinn frábæri, Schola cantorum, tónleika í hádeginu. Þrisvar í viku má njóta þess að hlusta á hæfileikaríka organista, suma á heimsmælikvarða, leika á hið magnaða Klais-orgel kirkjunnar. Organistarnir eru bæði íslenskir og erlendir, en erlendu gestirnir þetta árið eru frá Bandaríkjunum, Svíþjóð, Hollandi, Bretlandi, Frakklandi, Lettlandi og Þýskalandi.
Katelyn Emerson er framúrskarandi, ungur konsertorganisti frá Bandaríkjunum sem hefur unnið til margvíslegra verðlauna, meðal annars í alþjóðlegum orgelkeppnum í New York, Frakklandi og Rússlandi og numið hjá hinum heimsþekktu Olivier Latry og James David Christie. Hún heldur reglulega tónleika þar sem hún leikur verk frá öllum tímabilum, masterklassa og fyrirlestra um Bandaríkin og Evrópu.
Hún útskrifaðist frá Oberlin tónlistarháskólanum með gráður í orgelleik, tónlistarsögu og frönsku og hlaut veturinn 2015–16 Fulbright-styrk til að nema píanóleik, semballeik, ogelleik og continuo-spil við Konservatoríið í Toulouse. Í haust tekur Katelyn við starfi annars organista og kórstjóra við Aðventukirkjuna í Boston. Á tónleikunum í sumar leikur Katelyn afar fjölbreytt prógramm sem spannar allt frá barokktónlist til 20. aldar tónlistar.