Alþjóðlegt orgelsumar, hinir vinsælu sumartónleikar í Hallgrímskirkju, standa frá 18. júní til 21. ágúst þetta árið. Einu sinni í viku heldur kammerkórinn frábæri, Schola cantorum, tónleika í hádeginu. Þrisvar í viku má njóta þess að hlusta á hæfileikaríka organista, suma á heimsmælikvarða, leika á hið magnaða Klais-orgel kirkjunnar. Organistarnir eru bæði íslenskir og erlendir, en erlendu gestirnir þetta árið eru frá Bandaríkjunum, Svíþjóð, Hollandi, Bretlandi, Frakklandi, Lettlandi og Þýskalandi.
Kári Þormar, sem var meðal fyrstu orgelnemenda Harðar Áskelssonar á nývígt Klais-orgel Hallgrímskirkju, lauk burtfararprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar og síðar lauk A kirkjutónlistarnámi frá Robert Schumann háskólanum í Düsseldorf með 1. einkunn. Kári hefur haldið fjölda orgeltónleika, bæði hér heima og erlendis, þar á meðal á alþjóðlegri orgelhátíð í Álandseyjum og á alþjóðlegri tónlistarhátíð í Mühlhausen í Þýskalandi.
Hann hefur verið atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi sem organisti, píanókennari og kórstjóri en á þeim vettvangi var hann tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna með Kór Áskirkju fyrir geisladiskinn Það er óskaland íslenskt. Kári tók við stöðu dómorganista árið 2010. Hann hefur sérhæft sig í flutningi á verkum frönsku orgelmeistaranna, eins og sést á prógrammi hans í sumar þar sem hann leikur verk eftir Boëllmann, Alain, Franck, Langlais, Widor og hinn líbansk-franska Naji Hakim.