Alþjóðlegt orgelsumar, hinir vinsælu sumartónleikar í Hallgrímskirkju, standa frá 18. júní til 21. ágúst þetta árið. Einu sinni í viku heldur kammerkórinn frábæri, Schola cantorum, tónleika í hádeginu. Þrisvar í viku má njóta þess að hlusta á hæfileikaríka organista, suma á heimsmælikvarða, leika á hið magnaða Klais-orgel kirkjunnar. Organistarnir eru bæði íslenskir og erlendir, en erlendu gestirnir þetta árið eru frá Bandaríkjunum, Svíþjóð, Hollandi, Bretlandi, Frakklandi, Lettlandi og Þýskalandi.
Björn Steinar Sólbergsson er organisti við Hallgrímskirkju í Reykjavík og einnig skólastjóri og orgelkennari við Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Björn Steinar stundaði framhaldsnám á Ítalíu og í Frakklandi, útskrifaðist frá Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison árið 1986 og hlaut þá Prix de virtuosité. Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár þar sem hann vann markvisst að uppbyggingu tónlistarstarfs við kirkjuna.
Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima, á öllum Norðurlöndunum, í Evrópu og Norður-Ameríku. Hann hefur leikið einleik með sinfóníuhljómsveitum innanlands og utan og hljóðritað geislaplötur, m.a. öll orgelverk Páls Ísólfs¬sonar og orgelkonsert Jóns Leifs (BIS) sem hlaut einróma lof gagnrýnenda. Á tónleikunum í sumar leikur Björn Steinar verk eftir helstu orgeltónskáld Frakka ásamt íslenskum orgelverkum eftir Jón Nordal, Pál Ísólfsson og Hreiðar Inga (frumflutningur).