Á HERRANS HÁTÍÐ SYNGJUM
Aðventutónleikar Karlakórs Reykjavíkur í Hallgrímskirkju.
Árlegir aðventutónleikar Karlakórs Reykjavíkur Hallgrímskirkju verða haldnir sem hér segir:
Laugardaginn 12. desember kl. 17.
Sunnudaginn 13. desember kl. 17 og 20.
Aðalgestur kórsins þetta árið er sópransöngkonan Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú sem hefur um árabil verið í fremstu röð klassískra söngkvenna hér á landi og þótt víðar væri leitað. Þessi magnaða listakona hefur komið fram með Karlakór Reykjavíkur víða um lönd, bæði austan hafs og vestan en þetta er í fyrsta sinn sem hún skreytir aðventudagskrá kórsins. Félagar í Karlakór Reykjavíkur vænta mikils af samstarfinu við hana á komandi tónleikum.
Þá kallar Karlakór Reykjavíkur til fastagesti sína frá fyrri árum sér til fulltingis; organistann Lenku Mátéóvu, trompetleikarana Ásgeir H. Steingrímsson og Eirík Örn Pálsson auk Eggerts Pálssonar pákuleikara.
Stjórn þessa viðburðar verður í höndum Friðriks S. Kristinssonar, farsæls stjórnanda Karla-kórs Reykjavíkur í meira en aldarfjórðung.
Miðaverð á tónleikana er óbreytt frá fyrra ári eða kr. 4.900.