
Sinfóníuhjómsveit Íslands
Skilaboðaskjóðan
Heillandi, litrík og fjörug tónlistin úr ævintýrasöngleiknum Skilaboðaskjóðunni verður flutt á upphafstónleikum Litla tónsprotans. Skilaboðaskjóðan eftir Þorvald Þorsteinsson með tónlist eftir Jóhann G. Jóhannsson var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu í nóvember 1993 og fékk fádæma góðar viðtökur. Tónlistin hefur lifað sjálfstæðu lífi utan leikhússins og verður nú flutt í nýrri útsetningu tónskáldsins fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Með hljómsveitinni kemur fram söng- og leikhúsfólk í fremstu röð sem mun leysa frá skjóðunni í tali og tónum og gæða persónur ævintýraskógarins lífi.
Maddamamma saumakona, Rauðhetta og úlfurinn, Mjallhvít og stjúpan, Hans og Gréta og nornin að ógleymdum Dreitli og hinum dvergunum munu gleðja unga jafnt sem aldna og varpa sannkölluðum ævintýraljóma inn í Eldborgarsal Hörpu.
Ævintýralega spennandi tónleikar þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar slæst í för með persónum Skilaboðaskjóðunnar svo takast megi að bjarga Putta litla. Höfundur tónlistarinnar, Jóhann G. Jóhannsson, starfaði um árabil sem tónlistarstjóri Þjóðleikhússins.
Jóhann G. Jóhannsson
Tónlist úr Skilaboðaskjóðunni
Bernharður Wilkinson
hljómsveitarstjóri
Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Sigríður Thorlacius og Örn Árnason
söngvarar
Gradualekórar Langholtskirkju
Jón Stefánsson
kórstjóri