Hátíðartónleikar Alþjóðlegu tónlistarakademíunnar í Hörpu
17. júní kl. 16:00 í Norðurljósum
Tónleikarnir marka lok annars sumarnámskeiðs og tónleikahátíðar Alþjóðlegu tónlistarakademíunnar í Hörpu, sem haslar sér völl í íslensku tónlistarlífi um þessar mundir. Á tónleikunum leikur Akademíuhljómsveitin þekkt klassísk hljómsveitarverk ásamt ungum einleikurum úr röðum alþjóðlegra verðlaunahafa og framúrskarandi íslenskra ungmenna. Stjórnandi er hinn kínverski Hu Kun sem kennir við Konunglegu tónlistarakademíuna í Lon-don og er sjálfur margverðlaunaður fiðluleikari. Guðný Guðmundsdóttir, fyrrum konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, stjórnar Yngri strengjasveit á tónleikunum.
Á efnisskránni eru meðal annars konsertar eftir Vivaldi og Mozart og strengjaserenaða eftir Dvorák. Einleikarar í Sinfonia Concertante eftir Mozart eru fiðluleikarinn In Mo Yang, verðlaunahafi í alþjóðlegu Menuhin fiðlukeppninni 2014, og víóluleikarinn Eivind Holtsmark Ringstad sem vann Eurovision Young Musicians 2012, keppni evópskra útvarpsstöðva fyrir unga einleikara. Aðrir einleikarar sem koma fram eru fiðluleikararnir Sonoko Miriam Shimano Welde, Rannveig Marta Sarc, Pétur Björnsson og José Eduardo Canto Arco. Tónleikunum lýkur með flutningi íslenska þjóðsöngsins í tilefni þjóðhátíðardagsins.
Efnisskrá
Antonio VivaldiKonsert nr. 10 í h-moll fyrir 4 fiðlur
Einleikarar: Sonoko Miriam Shimano Welde
José Eduardo Canto Arco
Rannveig Marta Sarc
Pétur Björnsson
W.A. MozartSinfonia Concertante fyrir fiðlu, víólu og hljómsveit í Es-dúr
Einleikarar: In Mo Yang, fiðla
Eivind Holtsmark Ringstad, víóla
Hlé
Johan SvendsenTvö íslensk lög fyrir strengjasveit, op. 30
Antonin DvorákStrengjaserenaða í E-dúr, op. 22
Snorri Sigfús BirgissonHymni fyrir strengjasveit
Sveinbjörn SveinbjörnssonLofsöngur
Flytjendur:
Akademíuhljómsveitin, eldri og yngri strengjasveitir, ásamt einleikurum
Stjórnandendur: Hu Kun, Guðný Guðmundsdóttir
Kínverski fiðluleikarinn, stjórnandinn og kennarinn Hu Kun nam fiðluleik hjá föður sínum, Hu Wei Min prófessor, og Lin Yao Ji prófessor; píanóleik hjá móður sinni, Peng Shi Jun prófessor; og hljómsveitarstjórn hjá Xu Xin prófessor. Honum bauðst að leika einleik með Kínversku útvarpshljómsveitinni er hann var aðeins 13 ára. Einleiksferill hans á alþjóðlegum vettvangi hófst þegar hann hreppti 5. verðlaun í Sibelius-fiðlukeppninni í Helsinki árið 1980, þá 17 ára, og varð hann fyrsti Kínverjinn til að vinna til verðlauna í alþjóðlegri fiðlukeppni.
Síðan þá hefur hann ferðast víða, unnið fleiri fiðlukeppnir, hlotið plötusamninga og leikið einleik með sumum af stærstu sinfóníuhljómsveitum heims. Hann var eini einkanemandi Yehudi Menuhin, og nam fyrir skemmstu hljómsveitarstjórn hjá Sir Colin Davis. Hann hefur auk þess stofnað sína eigin hljómsveit, Hu Kun and Friends, sem starfrækt er í London, þar sem hann kennir við Royal Academy of Music. Þessa dagana ferðast Kun mikið sem stjórnandi, kennir masterklassa við ýmsar tónlistarhátíðir, og situr í eða fer fyrir dómnefndum alþjóðlegra tónlistarkeppna.
Guðný Guðmundsdóttir var ráðin 1. konsertmeistari við Sinfóníuhljómsveit Íslands haustið 1974. Hún hefur leitt hljómsveitina undir stjórn margra heimsþekktra hljómsveitarstjóra og leikið með mörgum frægustu einleikurum og einsöngvurum heims. Guðný lét af starfi 1. konsertmeistara haustið 2010. Auk starfa sinna í hljómsveitinni hefur hún verið farsæll kennari og kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík í áratugi. Hún hefur nú umsjón með fiðludeild Listaháskóla Íslands. Margir nemendur hennar eru í fremstu röð íslenskra fiðluleikara. Sumir þeirra hafa unnið til verðlauna í alþjóðlegum keppnum og einnig eru margir fyrrverandi nemendur hennar í leiðandi stöðum bæði heima og erlendis. Á undanförnum árum hefur Guðný, auk viðamikils tónleikahalds heima fyrir, gert víðreist á erlendri grund og komið fram sem einleikari með hljómsveitum m.a. í Bandaríkjunum, Mexíkó, Hong Kong og Puerto Rico. Hún hefur einnig haldið tónleika í Ísrael, Japan og Kína og í mörgum Evrópulöndum og á Norðurlöndum. Hún hefur verið gestakennari og haldið tónleika víða í erlendum háskólum og má þar nefna Tónlistarháskólann í Bejing, háskólana í Houston, Phoenix og Urbana í Illinois, auk þess að koma fram á fjölda sumarhátíða sem kennari og einleikari. Guðný hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir tónlistarstörf, s.s. Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu árið 1989 og Menningarverðlaun DV árið 1990. Guðný er meðlimur í Tríói Reykjavíkur ásamt Peter Máté píanóleikara og Gunnari Kvaran sellóleikara. Hún hefur leikið inn á nokkrar geislaplötur bæði einleik og kammertónlist. Geisladiskur með einleiksverkum eftir Þórarin Jónsson, J.S.Bach, Hallgrím Helgason og Hafliða Hallgrímssson var tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna 2002.
Styrktaraðilar:
Norræna menningargáttin
Ýlir – tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk
Tónlistarsjóður
Reykjavíkurborg
Lin Yao Ji Music Foundation of China
Samstarfsaðilar:
Harpa tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík
Sinfóníuhljómsveit Íslands
Listaháskóli Íslands
Tónlistarskólínn í Reykjavík
Lin Yao Ji Music Foundation of China