Ungir norskir einleikarar
Einleikaratónleikar Alþjóðlegu tónlistarakademíunnar í Hörpu
16. júní kl. 20:00 í Kaldalóni
Þrjú margverðlaunuð norsk ungmenni í brennidepli
Eivind Holtsmark Ringstad, víóla
sigurvegari Eurovision Young Musicians 2012
Sonoko Miriam Shimano Welde, fiðla
handhafi Norsku einleikaraverðlaunanna 2014
Sandra Lied Haga, selló
verðlaunahafi Emcy Art for Music Prize 2010
Norsku ungmennin munu taka þátt í og koma fram sem einleikarar á Alþjóðlegu tónlistarakademíunni í Hörpu dagana 7.-17. júní næstkomandi. Á einleikstónleikum í Kaldalóni 16. júní munu þau flytja vel þekkt einleiksverk fyrir fiðlu, víólu og selló, með og án undirleiks, eftir tónskáld á borð við Paganini, Franck, Dvorák, Hindemith og Schumann. Meðleikari á tónleikunum er Richard Simm.
Eivind Holtsmark Ringstad er fæddur 1994 og býr í Ósló í Noregi. Hann hóf fiðlunám fimm ára gamall en skipti yfir á víólu við fjórtán ára aldur. Hann hóf nám sitt til bachelorsgráðu í víóluleik við Barratt Due-tónlistarháskólann árið 2013 undir handleiðslu Soon Mi Chung og á sæti í kammerhljómsveitinni Oslo Camerata. Eivind leikur á viólu eftir Michael Stürzenhoffecker (2010) sem Dextra Musica hefur góðfúslega lánað honum.
Eivind hefur unnið fjölda keppna og verðlauna, þar á meðal Minningarverðlaun Øivind Bergh 2013, Tónlistarverðlaun Arve Tellefsen 2013, Karoline-verðlaunin 2013, fyrstu verðlaun í Eurovision Young Musicians 2012 í Vínarborg, fyrstu verðlaun í Virtuos-keppni Norska ríkisútvarpsins 2012, og Norsku einleikaraverðlaunin 2012. Hann varð í fjórða sæti og hlaut sérstök verðlaun dómnefndarinnar í 18. alþjóðlegu Johannes Brahms-keppninni í Austurríki 2011.
Sonoko Miriam Shimano Welde (f. 1996) er frá Bergen í Noregi. Hún hóf fiðlunám fimm ára gömul. Núverandi kennari hennar er Stephan Barratt-Due, prófessor við fremsta tónlistaháskóla Noregs, Barratt Due-tónlistarháskólann. Sonoko Miriam hefur komið fram sem einleikari í sölum á borð við Wigmore Hall í London, Grieg Hall í Bergen, Óperuhúsið í Tókýó og Osaka Izumi Hall. Hún hefur leikið einleik með hljómsveitum á borð við Bergen Philharmonic, Norsku útvarpshljómsveitina, Collegium Musicum, Ung Symfoni, Kammerhljómsveit Eistlands og Oslo Camerata. Sonoko Miriam leikur á fiðlu eftir S. Zygmuntowicz, sem hún hefur í láni frá Dextra Musica.
Sonoko Miriam hefur þrisvar unnið fyrstu verðlaun í Tónlistarkeppni Noregs fyrir ungmenni, vann fyrstu verðlaun og heiðursverðlaun í Midgard-keppninni 2012, og vann til verðlauna í Alþjóðlegu Kocian-fiðlukeppninni í Tékklandi 2007 og Young Musician-keppninni í Tallinn 2009 og hefur tvisvar komist í undanúrslit Menuhin-keppninnar. Sonoko Miriam er sigurvegari Virtuos-keppni Norska ríkisútvarpið, handhafi Hæfileikaverðlauna Bergen og Norsku einleikaraverðlaunanna 2014.
Sandra Lied Haga, fædd 1994, hóf sellónám þriggja ára gömul. Sex ára varð hún yngsti nemandinn til að fá inntöku í undirbúningsdeild fyrir hæfileikarík börn við Barratt Due-tónlistarháskólann. Frá 15 ára aldri hefur hún verið nemandi Truls Mørk. Sandra hefur leikið einleik með mörgum atvinnuhljómsveitum í Noregi og víðar, og hún hefur verið boðsgestur á virtum tónlistarhátíðum og tónleikum í Bandaríkjunum og Evrópu, þar á meðal Sommets Musicaux; Aspen-tónlistarhátíðinni; Verbier-akademíunni, þar sem hún var beðin að halda einleikstónleika í minningu fórnarlamba hryðjuverkanna þann 22. júlí 2011; og Alþjóðlegu tónlistarhátíðinni í Bergen, þar sem henni var boðið að leika einleik með Leif Ove Andsnes í ár. Sandra leikur á Michael Sturzenhofecker-selló sem Dextra Musica hefur góðfúslega lánað henni.
Sandra hefur hlotið fyrstu verðlaun og hæstu einkunnir í mörgum norskum tónlistarkeppnum. Á alþjóðlegum vettvangi hefur hún unnið fyrstu verðlaun og virtúósaverðlaun í Young Musician-keppninni í Tallinn og fyrstu verðlaun í Alþjóðlegu Padova-tónlistarkeppninni. Ellefu ára gömul vann hún fyrstu verðlaun í Alþjóðlegu Heran-sellókeppninni í Tékklandi og vann að auki heiðursverðlaun fyrir alla keppnina, Bärenreiter-verðlaunin, og Emcy-verðlauninn. Árið 2010 vann hún tónlistarverðlaunin Emcy Art for Music Prize.
Richard Simm fæddist á Englandi og vakti athygli sextán ára gamall með leik sínum á píanókonsert nr.1 eftir Liszt. Hann nam við Royal College of Music í London hjá Bernard Roberts og við Staatliche Hochschule für Musik í München hjá Erik Then-Bergh. Hann vann til margra verðlauna á námsárum sínum, fékk þ.á.m. tvenn verðlaun fyrir túlkun sína á verkum Chopin. Árið 1969 tók hann þátt í þekktri alþjóðlegri píanókeppni í Leeds og var eini breski keppandinn er vann til verðlauna. Richard hefur haldið tónleika í Wigmore Hall og Purcell Room í London, auk þess að hafa komið fram á fjölda tónleika í Þýzkalandi, í Bandaríkjunum og á Íslandi. Hann var fastráðinn í níu ár sem píanóleikari og kennari við Háskólann í Wales og gestaprófessor við Illinois Háskólann í þrjú ár. Hann hefur unnið til ýmissa verðlauna fyrir útsetningar sínar á verkum fyrir tvö píanó, þ.á.m. átta sinnum verðlaun American Society of Composers Authors and Publishers. Þessi verk voru gefin út af Warner Bros. Frá því að hann settist að á Íslandi árið 1989 hefur Richard komið fram með mörgum helstu tónlistarmönnum landsins, einnig sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Á Listahátíð í Reykjavík 2006 lék hann Fantasiestücke, Op.12 eftir Schumann. Hann hefur unnið með Rut Ingólfsdóttur síðan 2001 og hafa þau kynnt íslensk verk fyrir fiðlu og píanó í Tokyo, Paris, Brussel, Beijing, Lanzhou og Róm. Richard Simm starfar nú sem píanóleikari við Listaháskóla íslands, býr í Reykjavík og er kvæntur Vilborgu St. Sigurjónsdóttur, sem einnig starfar við tónlist.
Efnisskrá
Dvorák / KreislerSöngvar sem móðir mín kenndi mér fyrir fiðlu og píanó
Ernest ChaussonPoeme op. 25 fyrir fiðlu og píanó
César FranckSónata fyrir selló og píanóí A-dúr
Hlé
Robert SchumannMärchenbilder op. 113 fyrir víólu og píanó
Paul HindemithSónata fyrir einleiksvíólu op 25, nr. 1
Paganini/PrimroseLa Campanella fyrir víólu og píanó
Styrktaraðilar:
Norræna menningargáttin
Ýlir – tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk
Tónlistarsjóður
Reykjavíkurborg
Lin Yao Ji Music Foundation of China
Samstarfsaðilar:
Harpa tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík
Sinfóníuhljómsveit Íslands
Listaháskóli Íslands
Tónlistarskólínn í Reykjavík
Lin Yao Ji Music Foundation of China