
Sinfóníuhjómsveit Íslands
Fiðlukonsert og hirðdansar
Breski fiðluleikarinn Anthony Marwood leikur Fiðlukonsert í d-moll eftir samlanda sinn Benjamin Britten en í ár eru 100 ár frá fæðingu tónskáldsins. Fiðlukonsertinn er í flokki bestu verka Brittens og því sérstakt tilhlökkunarefni að heyra hann í flutningi Marwoods sem hefur hlotið mikið lof fyrir litríka túlkun og tjáningarríkan leikmáta.
Vinsældir Haydns í Englandi voru gríðarlegar og var Sinfónía nr. 102 flutt undir stjórn tónskáldsins í Konunglega leikhúsinu í London 1795 við rífandi undirtektir. Hljóðheimur annars þáttar sinfóníunnar þykir einn sá magnaðasti í verkum tónskáldsins.
Þokkafullir Hirðdansar Brittens sem hafa skemmtilega skírskotun í endurreisnartímann og úrval léttra hljómsveitarþátta eftir Henry Purcell, sem skapaði hinn eina sanna enska barokkstíl, fara einkar vel með áheyrilegri sinfóníu Haydns.
Andrew Manze hefur á skömmum tíma skipað sér í hóp markverðustu hljómsveitarstjóra samtímans. Hann mun á næsta ári taka við stöðu aðalhljómsveitarstjóra NDR-útvarpshljómsveitarinnar í Hannover en auk þess eru fram undan verkefni hjá fílharmóníuhljómsveitunum í New York, Los Angeles og London.
Henry Purcell/Andrew Manze
Svíta
Benjamin Britten
Konsert fyrir fiðlu Hirðdansar úr sinfónískri svítu, Gloriana
Joseph Haydn
Sinfónía nr. 102
Andrew Manze
hljómsveitarstjóri
Anthony Marwood
einleikari