
Sinfóníuhjómsveit Íslands
Bach og Beethoven
Jonathan Gandelsman, verðlaunahafi Kreisler-fiðlukeppninnar og Menuhin-keppninnar, er einn eftirtektarverðasti fiðluleikari yngri kynslóðarinnar. Hann er ákafur talsmaður lista án landamæra og meðlimur í Silk Road tónlistarhópnum, einum áhugaverðasta tónlistarhópi samtímans. Gandelsman er einn stofnenda Brooklyn Rider strengjakvartettsins sem gagnrýnendur hafa hlaðið lofi.
Bach var undir ítölskum áhrifum þegar hann samdi hinn undurfallega fiðlukonsert í a-moll. Konsertinn er einkar áferðarfagur þar sem raddir hljómsveitar og einleikara eru ofnar saman á fíngerðan hátt. Annar þáttur konsertsins er áhrifamikill og algjör andstæða lokaþáttarins sem krefur einleikarann um stigmagnandi virtúósatilþrif.
Tónlist Jean-Philippes Rameau við óperuna Dardanus þótti nýstárleg og olli miklu fjaðrafoki við frumflutning hjá íhaldssamari hlustendum. Óperan byggir á grískri goðsögn og setti Rameau saman svítu úr litríkum og fjölbreyttum dansþáttum óperunnar.
Beethoven bjó yfir miklu dramatísku innsæi sem kom hvergi skýrar fram en í sinfóníum hans sem teljast til öndvegisverka tónbókmenntanna. Þriðju sinfóníuna tileinkaði tónskáldið Napóleón Bonaparte, en dró tileinkunina til baka þegar franska þingið gaf Bonaparte keisaranafnbót. Þriðja sinfónían er það tónverk sem hljómar hvað oftast á tónleikum sinfóníuhljómsveita um allan heim.
Jean-Philippe Rameau
Dardanus ballettsvíta
Johann Sebastian Bach
Fiðlukonsert í a-moll
Ludwig van Beethoven
Sinfónía nr. 3, Eroica
Ilan Volkov hljómsveitarstjóri
Jonathan Gandelsman einleikari