
Sinfóníuhjómsveit Íslands
Upphafstónleikar
Hinn heimsþekkti rússneski hljómsveitarstjóri Dmitri Kitajenko heldur um tónsprotann á glæsilegum upphafstónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Dmitri Kitajenko er einn merkasti hljómsveitarstjóri samtímans en hann stjórnar reglulega þekktustu hljómsveitum heims á borð við Berlínarfílharmóníuna, Sinfóníuhljómsveit Vínarborgar og Gewandhaushljómsveitina í Leipzig.
Á efnisskránni eru tvö verk samlanda Kitajenkos, Myndir á sýningu eftir Músogskíj og hljómsveitarsvíta Rimskíj-Korsakovs, Scheherazade. Bæði tónverkin eru meðal helstu djásna rússneskra tónbókmennta og upphafstónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands því sannkölluð veisla í tónum.
Ævintýrið Þúsund og ein nótt er sögusvið hljómsveitarsvítunnar Scheherazade. Seiðandi tónlist Rimskíj-Korsakovs er undir austurlenskum og rússneskum áhrifum og nær tónskáldið að galdra fram heillandi ævintýrastemningu í þessari litríku hljómsveitarsvítu.
Í kjölfar andláts myndlistarmannsins Viktors Hartmann var haldin sýning á verkum hans sem hafði mikil áhrif á rússneska tónskáldið Modest Músorgskíj sem syrgði góðan vin. Sýningin varð uppspretta að tónverki fyrir píanó í minningu Hartmanns sem Músorgskíj nefndi Myndir á sýningu. Franska tónskáldið Ravel færði svo verkið í þann hljómsveitarbúning sem notið hefur gífurlegra vinsælda æ síðan og leikinn er á upphafstónleikunum.
Nikolaj Rimskíj-Korsakov
Scheherazade
Modest Músorgskíj
Myndir á sýningu
Dmitri Kitajenko
hljómsveitarstjóri