
Í tilefni af Grænlandsdögum er efnt til tónleika í Kaldalóni, sunnudaginn 30. mars klukkan 15. Fram koma Anda Kuitse, frægasti trommudansari Grænlands, og tríóið Appisimaar frá Kulusuk, sem skipað er Anton Sianiale, Anda T. Kuitse og Efraim Ignatiussen. Sérstakir gestir á tónleikunum eru Pálmi Gunnarsson og Bjartmar Guðlaugsson. Samhliða tónleikunum verður efnt til Grænlandskynningar á 1. hæð Hörpu, þar sem fyrirtæki og félög kynna starf sitt á Grænlandi.
Ágóði af tónleikunum rennur til sundkrakkaverkefnis Kalak - vinafélags Íslands og Grænlands, sem árlega býður börnum frá Grænlandi til sundkennslu á Íslandi, og til starfs Hróksins meðal barna og ungmenna á Grænlandi.