
Georgíski píanóleikarinn Khatia Buniatishvili hefur vakið mikla athygli á undanförnum árum fyrir túlkun sína og sérstæða nálgun að helstu verkum píanóbókmenntanna. Hún kom fyrst opinberlega fram árið 1993, þá sex ára gömul og var farin að halda reglulega tónleika víða um heim nokkrum árum síðar. Hún hefur sigrað í fjölmörgum keppnum m.a. Arthur Rubinstein-keppninni og Alþjóðlegu píanókeppninni í Tbilisi. Árið 2008 þreytti hún frumraun sína í Bandaríkjunum og lék þá píanókonsert nr. 2 eftir Chopin í Carnegie Hall með Yale-sinfóníuhljómsveitinni. Síðan þá hefur hún leikið með fjölmörgum þekktum hljómsveitum og unnið með hljómsveitarstjórum og listamönnum á borð við Kent Nagano, Gidon Kremer, Truls Mörk, Maxím Vengerov, Paavo Järvi, Vladimir Ashkenazy, Kirill Karabits og Mörthu Argerich. Hún er reglulegur gestur á tónlistarhátíðum á borð við hátíðirnar í Verbier, Luzern, Amsterdam, Pétursborg og Leipzig og BBC Proms, sumartónlistarhátíðina í Lundúnum.
Khatia Buniatishvili heillaði íslenska tónleikagesti þegar hún lék píanókonsert nr. 1 eftir Sergej Prokofiev með hljómsveitinni I, Culture Orchestra á tónleikum í Hörpu í ágúst á síðasta ári.
Efnisskrá Buniatishvili á Listahátíð í Reykjavík samanstendur af vel þekktum verkum eftir Brahms, Ravel, Chopin og Stravinsky.
Efnisskrá
Johannes Brahms: Intermezzo ópus 117 nr. 1 og 2 og ópus 118 nr. 2
Maurice Ravel: Gaspard de la Nuit
Hlé
Frédéric Chopin: Scherzo nr. 2
Maurice Ravel: La valse
Igor Stravinsky: Þrír þættir úr Petrushka