
Sinfóníuhjómsveit Íslands
Tectonics – Taka þrjú!
Tectonics-tónlistarhátíð Sinfóníuhljómsveitar Íslands með nýrri tónlist undir listrænni stjórn Ilans Volkov verður haldin í þriðja sinni. Sérstök áhersla á hátíðinni í ár verður lögð á íslenska tónlist með ný íslensk verk og nýja íslenska hljómsveitartónlist í forgrunni þar sem samstarf ólíkra tónlistarmanna úr ýmsum geirum kristallast. Á hátíðinni hljóma meðal annars verk eftir Charles Ross, Valgeir Sigurðsson, Kjartan Sveinsson, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur og Bergrúnu Snæbjörnsdóttur.
Tectonics-tónlistarhátíðin, sem hleypt var af stokkunum í marsmánuði fyrir tveimur árum, hefur hlotið einróma lof innanlands sem utan. Á hátíðinni slást heimamenn í tónlist í för með Sinfóníuhljómsveit Íslands og kynna fjölbreytt verk á nýjan og einstæðan máta. Ýmis rými Hörpu ásamt ólíkum eiginleikum og hljóðvistarlandslagi tónleikasala hússins verða nýtt til hins ýtrasta.
Taka þrjú á Tectonics verður áframhaldandi leiðangur flytjenda og hlustenda um magnaðar hljóðlendur og ómrými Hörpu. Á Tectonics leiða saman hesta sína tónlistarmenn ólíkra heima þar sem óendanlegur fjölbreytileiki tónlistarinnar opnast áheyrendum sem vilja fanga hið óvænta.
Ilan Volkov
listrænn stjórnandi