
Sinfóníuhjómsveit Íslands
Kvöldstund með Mozart
Brunnur snilldarverka Mozarts er nær ótæmandi. Hrífandi flautukonsert hans einkennist af yfirlætislausum þokka og tækifærum einleikarans til að sýna snilli sína umbúðarlaust. Tilhlökkunarefni verður að heyra konsertinn í flutningi Hallfríðar Ólafsdóttur, fyrsta flautuleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en Hallfríður hefur til margra ára verið leiðandi afl í íslensku tónlistarlífi.
Sterkur persónulegur stíll er ríkjandi í danstónlist Mozarts. Balletttónlistin úr Idomeneo er þar engin undantekning þar sem fimm fjölbreyttir þættir balletttónlistarinnar mynda órofaheild í ætt við óperuforleik eða sinfóníu. Sinfónía nr. 36 markaði nýtt upphaf magnaðra sinfónískra skrifa hjá Mozart. Hann samdi þessa ástsælu sinfóníu á aðeins fjórum dögum árið 1783 í góðu yfirlæti hjá Thun greifa í Linz. Maurerische Trauermusik er þekktasta frímúraratónlist Mozarts sem sjálfur var reglubróðir. Tónlistin er alvarleg og dramatísk í ætt við Sálumessu tónskáldsins.
Það er við hæfi að á þessum Mozart- tónleikum stjórni breski hljómsveitarstjórinn Leo Hussain, tónlistarstjóri Landestheater í Salzburg, fæðingarbæ Mozarts. Hussain hefur á síðustu árum verið eftirsóttur stjórnandi bæði í óperu- og hljómsveitargeiranum.
Wolfgang Amadeus Mozart
Balletttónlist úr Idomeneo
Flautukonsert nr. 1
Maurerische Trauermusik
Sinfónía nr. 36, Linz
Leo Hussain
hljómsveitarstjóri
Hallfríður Ólafsdóttir
einleikari