Dramatísk frásögn í tónum um fögnuð, sorg, fegurð og ljótleika í flutningi barokkhópsins Symphonia Angelica.
Sagan af Lucreziu hefur verið listamönnum innblástur um aldir. Lucrezia, fögur og eftirsóknarverð stúlka af merkum ættum, var uppi í Róm um 500 árum fyrir Krist. Á þeim tíma ríkti mikil ólga og konungurinn og harðstjórinn L. Tarquinius Superbus var við völd. Sonur hans, Sextus, nauðgar Lucreziu sem fremur sjálfsmorð af skömm. Eiginmaður Lucreziu, Collatinus, sver að drepa Tarquinius konung, þar sem Lucrezia hafði ekki haldið glæp Sextusar leyndum. Í kjölfarið fer af stað bylting, konungdæmið hrynur og rómverska lýðveldið er stofnað.
Kantatan La Lucrezia eftir Händel er einleikur sem byggir á örlögum rómversku stúlkunnar og áheyrendur fara með Lucreziu í tilfinningaferðalag gegnum þjáningu hennar. Händel færir frásögn Lucreziu fram á snilldarlegan hátt með fallegum laglínum, áköfu söngtali og mögnuðu coloratura. Barokkhópurinn Symphonia Angelica er skipaður íslensku tónlistarfólki sem starfar á alþjóðlegum vettvangi. Nálgun hópsins við viðfangsefnið er fersk og skapandi, bæði í framsetningu og flutningi, í því skyni að gera samband milli áhorfenda og flytjenda nánara. Verkum hinnar frönsku Elisabeth-Claude Jacquet de la Guerre auk Johann Adolph Hasse, Henry Purcell og Antonio Vivaldi er tvinnað inn í söguna ásamt spuna til að tengja verkin saman, ná fram sérstökum áhrifum og glæða formið lífi.
Flytjendur: Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzó-sópran, Sigurður Halldórsson sellóleikari, Halldór Bjarki Arnarson semballeikari, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir fiðluleikari, Hildigunnur Halldórsdóttir fiðluleikari, Þóra Margrét Sveinsdóttir víóluleikari, Arngeir Heiðar Hauksson, gítar- og lútuleikari
EFNISSKRÁ
Henry Purcell
Sónata í g-moll
G.F. Händel
Aría Scherza Infida?úr Ariodante
Elisabeth-Claude Jacquet de la Guerre
Ouverture –?Aría Non, vivez, je le veux?úr Cephale et Procris?
A. Vivaldi
Sinfónía í C-dúr?
G.F. Händel
Kantata – La Lucrezia HWV 145?
Elisabeth-Claude Jacquet de la Guerre:
Chacconna?
J.A. Hasse/N. Porpora
Or la nube procellosa? úr Artaserse