Hljómsveitin Agent Fresco heldur stórtónleika í Gamla Bíó föstudagskvöldið 15. Apríl ásamt góðum gestum.
Undanfarnir mánuðir hafa verið draumi líkast hjá meðlimum Agent Fresco en eftir að plata þeirra Destrier kom út síðasta Ágúst hefur hljómsveitin haft í nógu að snúast. Eftir uppselda útgáfutónleika í Hörpu og frábærar viðtökur á Iceland Airwaves hátíðinni fóru strákarnir í mánaðar langa tónleikaferð um Evrópu þar sem þeim var einstaklega vel tekið. Í byrjun árs fóru þeir svo enn á ný í ferðalag og ferðuðust þeir ásamt stórsveitinni Coheed and Cambria um Þýskaland.
Platan Destrier fékk einróma lof gagnrýnenda um allan heim og hafa strákarnir rakað til sín verðlaunum í byrjun árs. Rás 2 verðlaunaði þá fyrir framúrskarandi lifandi fluttning á árinu 2015 með Króknum og á hlustendaverðlaunum 365 fengu strákarnir verðlaun fyrir tónlistarmyndband ársins við lagið See Hell. Á íslensku tónlistarverðlaununum fengu strákarnir flestar tilnefningar allra og fóru heim með verðlaun fyrir Plötu ársins og Arnór Dan söngvari sveitarinnar var verðlaunaður sem söngvari ársins.
Framundan er mikið að gera hjá strákunum en þeir munu koma fram á ótal tónlistarhátíðum bæði hér heima og erlendis. Í haust halda þeir svo í sína fyrstu tónleikaferð um Norður Ameríku.
Áður en þeir fara á flakk aftur vildu þeir halda almennilega tónleika hér heima á Íslandi og þessvegna ætla þeir að halda stórtónleika í Gamla Bíó. Ásamt Agent Fresco koma fram 2 af vonarstjörnum Íslands í tónlistarheiminum Axel Flóvent og Soffía Björg.
Miðaverð er 2900 kr og opnar húsið klukkan 19:30 og tónleikarnir hefjast 20:30.