Berjadagar 2015
Fimmtudagskvöld - ,,..ég lít í anda liðna tíð"?
Föstudagskvöld - ,,líkt og stjörnur á himni"
Mógil vefur einstakan hljóðvef í tónsmíðum sínum. Þar getur að heyra áhrif frá klassík, þjóðlagatónlist, og djassi. Textarnir eru mikilvægir í lögum þeirra og nokkur ljóð eru eftir söngvara hópsins Heiðu Árnadóttur en
þau syngja einnig við ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur, Hannesar Péturssonar og Árna Ísakssonar. Þau hafa ferðast víða um heim og leikið á hátíðum einsog heimstónlistarhátíðinni WOMEX og nú geta áheyrendur notið þeirra í notalegu kirkjunni í Ólafsfirði þar sem þau flytja sín lög en einnig þekkt íslensk þjóðlög.
Meðlimir: Heiða Árnadóttir söngur, Kristín Þóra Haraldsdóttir víóla, Hilmar Jensson rafgítar, Eiríkur Orri Ólafsson trompet og Joachim Badenhorst klarinett.
Laugardagskvöld - Leikhússýningin: Annar tenór - en samt sá sami?
Leikverkið er framhald af hinu vinsæla leikriti Guðmundar sem fór á fjalir Iðnó árið 2003 og fór vítt um land við mikinn fögnuð. Leikverkið Annar tenór gerist 11 árum síðar þar sem tenórinn ,,frægi"og undirleikarinn geðprúði hittast aftur fyrir tilviljun og taka tal saman. Raunveruleikinn blasir við og í leikritinu afhjúpast raunir aðalpersónunnar á eftirminnilegan hátt en m.a. fyrir tilstuðlan stórskemmtilegri þriðju persónu sem leikin er af Aðalbjörgu Árnadóttur. Hér eins og þá syngur Guðmundur sig inní hjörtu áheyrenda með völdum söngperlum við undirleik Sigursveins.