Á fyrstu tónleikum sínum á Íslandi flytur Nicola Lolli, nýr konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, ásamt píanistanum Domenico Codispoti, verk sem spanna tvö hundruð ára tímabil. Frá síðustu sónötu Beethovens, meistarastykkis klassískrar fegurðar, fullkominna hlutfalla og einstaks samtals til frumflutningar á nýrri tónsmíð Þuríðar Jónsdóttur sem ber heitið Solid Hologram og samin er að beiðni Listahátíðar. Ferðalagið heldur áfram með magnþrungnum óði til lífsins í verki Sofiu Gubaidulinu ‘Dancer on a tightrope’ og lýkur með ljóðrænni en áhrifamikilli fiðlusónötu Sergeis Prokofiev í f-moll.
„Mótun tónlistar: tvær aldir trausts, samtals og samhyggðar“
Þuríður Jónsdóttir hefur samið verk af ýmsum toga, sum þeirra studd rafhljóðum, þátttöku áheyrenda, leikrænum tilburðum eða náttúruhljóðum. Nefna má verk fyrir barokkfiðlu og hljóðvoðir, flautukonsert með hljóðum skordýra og verk fyrir umsnúna, erfðabreytta hljómsveit. Verkin hafa verið pöntuð og flutt af íslenskum og erlendum hljóðfærahópum á hátíðum eins og Présences útvarpshátíðinni í París, Klang, Norrænum músíkdögum, ISCM og New Directions. Verk hennar hafa verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og Rostrum, alþjóðlegu tónskáldaþingi útvarpsstöðva (UNESCO). Þuríður var tilnefnd til Tónskáldaverðlauna Norðurlandaráðs 2006, 2010 og 2012.
Fiðluleikarinn Nicola Lolli fæddist í Castelfranco Veneto á Ítalíu og hélt sína fyrstu einleikstónleika í Teatro Chiabrera í Savona aðeins ellefu ára gamall. Nicola hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, National Taiwan Normal University Symphony Orchestra, Salieri Orchestra og Orchestra dell’Università di Pisa. Hann hefur unnið til verðlauna í ýmsum keppnum eins og Italian National competition í Vittorio Veneto 1993 og 1997. Nicola var ráðinn í tímabundna stöðu við Vínarfílharmóníuna og frá 2012 er hann ráðinn í stöðu 1. konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
„Einn af þeim bestu, ungu konsertpíanistum sem ég þekki. Hann býr yfir frábærri tæknikunnáttu, óvenjumikilli næmni í túlkun og áhrifamiklum þroska.“
Þetta eru orð Gyorgys Sandor við afhendingu fyrstu verðlauna til Domenico Codispotií Pilar Bayona International píanókeppninni í Zaragoza á Spáni, er mörkuðu upphaf alþjóðlegs ferils hans. Ítalski píanóleikarinn Domenico Codispoti, sem fæddur er í Catanzaro á Ítalíu árið 1975, er einnig vinningshafi Ferrol International píanókeppninnar og Premio Jaén (WFIMC). Domenico hefur komið fram sem einleikari með fjölmörgum hljómsveitum eins og Luzerner Sinfonieorchester, Orchestra Filarmonica Italiana, Útvarpshljómsveitinni í Varsjá, London Chamber Orchestra, Brno Philarmonic, Orquesta Sinfonica de Galicia, Orquesta de Cordoba og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann býr nú og starfar í Róm og kennir píanóleik við Conservatorio Lorenzo Perosi í Campobasso á Ítalíu.
„Domenico Codispoti leikur með hlýju og ákafa sem minnir á sjálfan Cortot. Hljómur hans er ríkur og hefur fyllingu á við Arrau.“– Gramophone, 2013
Efnisskrá:
Ludwig van Beethoven: Sónata nr. 10 fyrir fiðlu og píanó í G-dúr, op. 96 (1812) 30'
– Allegro moderate
– Adagio espressivo
– Scherzo. Allegro
– Poco Allegretto
Sofia Gubaidulina: Dancer on a tightrope fyrir fiðlu og píanó (1993/95) 14'
Þuríður Jónsdóttir: Solid Hologram (2015) – frumflutningur
Sergei Prokofjev: Sónata nr. 1 fyrir fiðlu og píanó í f-moll, op. 80 (1938-1946) 30'
– Andante assai
– Allegro brusco
– Andante
– Allegrissimo. Andante assai, come prima