Lindur – Vocal VII er stórt í sniðum og í því renna saman innsetning, fjölrása myndband, frumsamið hljóðverk, hreyfing, texti og raddir. Myndbandshluti verksins er unninn í samstarfi við Maríu R Jóhannsdóttur ásamt Ólafi R Halldórssyni og Friðþjófi Helgasyni, hljóðhluti verksins er unninn í samstarfi við Bjarka Jóhannsson. Nýlókórinn, Hinn íslenski hljóðljóðakór, kemur fram við flutning gjörningsins ásamt listamanninum. Verkið er um 40 mínútur í flutningi.
Myndlistamaðurinn Rúrí (Þuríður Rúrí Fannberg) er þekkt fyrir útilistaverk eins og Regnbogann við flugstöðina í Keflavík og Fyssu í Grasagarðinum í Reykjavík, einnig innsetningar eins og Glerregn sem sýnt var vorið 2001 í Listasafni Íslands og PARADÍS? – Hvenær? sem sýnt var á Kjarvalsstöðum 1998.
Verk hennar eru hugmyndafræðilegs eðlis, en eru sett fram með margvíslegri tækni, svo sem skúlptúr, innsetningar, margmiðlunarverk, gjörningar, bókverk, kvikmyndir, video, hljóðverk, blönduð tækni tölvuvædd og gagnvirk verk.
Rúrí sýnir reglulega á alþjóðlegum vettvangi, m.a. víða í Evrópu, í Ameríku og Asíu. Hún var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2003 þar sem verk hennar vakti gríðarmikla athygli og hlaut mikla umfjöllun.