Hið þekkta sænska jazztríó, Jan Lundgren Trio, verður með tónleika á Listahátíð Reykjavíkur fimmtudaginn 4. júní í Gamla bíói.
Jan Lundgren er heimsþekktur sænskur jazzpíanisti og tónskáld sem gefið hefur út hátt í 50 hljómdiska, en síðasti diskur hans, Flowers of Sendai, vann á síðasta ári verðlaun Jazz Journal, sem besti jazzdiskur ársins. Jan hóf feril sinn sem klassískur píanóleikari, en hefur frá unglingsárum helgað sig jazztónlistinni. Hann hefur haldið tónleika um allan heim með tríói sínu við frábærar undirtektir og er á samningi hjá hinu virta ACT-plötufyrirtæki, en jafnframt hjá píanóframleiðandanum Steinway & Sons, einn fárra jazzpíanista. Tónlistin er hljómfagur skandinavískur jazz, sem sver sig í ætt annarra heimsfrægra, sænskra jazzpíanista eins og Jan Johansson, Anders Widmark og Esbjörn Svensson. Með Jan koma fram Matthias Svensson á kontrabassa og Zoltan Csörsz Jr á trommur en þeir hafa leikið saman síðan 1997, þegar hin margverðlaunaða plata, Swedish Standards, kom fyrst út.