Annað árið í röð munu Listahátíð í Reykjavík og menningarhúsið Mengi hafa samstarf um tónleika á Listahátíð. Mengi hefur undanfarið ár haldið uppi fjölbreyttri dagskrá og lífgað upp á menningarlíf Reykjavíkur með ýmsum viðburðum s.s. tónleikum, tónlistargjörninum og fleira og hefur bæði verið tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna og Menningarverðlauna DV. Í ár verða fernir tónleikar haldnir í Mengi á Listahátíð. Fjóra laugardaga í röð stíga á stokk konur í tónlist, ýmist á hátindi ferilsins eða að stíga sín fyrstu skref innan tónlistarheimsins.
Laugardaginn 6. júní mun Gyða Valtýsdóttir flytja verkið Galagalactic sem er óður til eilífðarinnar. Það snýst í áttu, allar áttir samtímis. Hvert korn af sandi séð með auga smásjárinnar birtir liti og form svo sem sérhvert örhljóð hefur sinn stakleika, áferð og yfirtóna. Galagalactic er leikur að þessari litadýrð kosmískra agna og einda. Gyða Valtýsdóttir, vædd boga og sellói, mun spinna óð áttunnar úr augnablikinu og bjóða áheyrendum að æða um áttavillt í eilífðinni.
Gyða Valtýsdóttir hóf tónlistarferilinn á táningsaldri með hljómsveitinni múm. Hún yfirgaf sveitina til að einbeita sér að klassísku tónlistarnámi og lærði meðal annars í Rimsky-Korsakov Conservatory í St. Pétursborg og Hochschule für Music í Basel, þar sem hún lauk meistaranámi í sellóleik hjá Thomas Demenga og frjálsum spuna hjá Walter Fähndrich. Hún leikur reglulega með Shahzad Ismaily, Josephine Foster, Julian Sartorius, Colin Stetson og múm og hefur unnið með fjölda annarra listamanna í gegnum árin, m.a. Ben Frost, A Winged Victory for the Sullen, Efterklang, Dustin O'Halloran, Damien Rice, Ragnari Kjartanssyni, Hilmari Jenssyni, Skúla Sverrissyni o.fl.