Á hátíðlegum nótum – Jólatónleikar Siggu Beinteins í Bíóhöllinni.
Hinir árlegu jólatónleikar Siggu Beinteins verða haldnir í Bíóhöllinni Akranesi laugardagskvöldið 13.desember kl. 20.30.
Uppselt er á jólatónleika Siggu í Eldborg þann 6.desember og komust færri að en vildu, en það seldist upp á tónleikana í lok október. Tónleikarnir á Akranesi verða einu jólatónleikar Siggu á landsbyggðinni þetta árið.
Sigga hélt sína fyrstu jólatónleika fyrir jólin 2009 í Grafarvogskirkju og hafa tónleikarnir verið árlegur viðburður síðan og eru nú orðnir fastur liður í jólahaldi margra.
Á tónleikunum, sem bera heitið Á hátíðlegum nótum, býður Sigga til sannkallaðrar tónlistarveislu, sem hún hefur þó á einlægum og persónulegum nótum - og sparar ekkert til.
Með Siggu koma fram góðir gestir ásamt landsliði tónlistarmanna - og tónninn sem gefinn er er einlægur og hlýr - eins og Sigga sjálf.
Sérstakir gestir
Gestir Siggu á Akranesi verða þau Diddú, Garðar Thor Cortes og Egill Ólafsson.
Hljóðfæraleikarar
Benedikt Brynleifsson á trommur / slagverk
Friðrik Karlsson á gítar
Karl Olgeirsson á pianó / hljómborð
Róbert Þórhallsson á bassa
Stefán Örn Gunnlaugsson á hljómborð
Bakraddir
Alma Rut Kristjánsdóttir, Gísli Magna Sigríðarson og Ína Valgerður Pétursdóttir.