
Hljómsveitirnar Móses Hightower, Ylja og Snorri Helgason hafa í sameiningu ákveðið að blása til sannkallaðra hátíðartónleika milli jóla og nýárs. Tónleikarnir fara fram í Gamla bíói, laugardagskvöldið 28. desember og eru því tilvaldir til þess að jafna sig eftir jólaösina sem og til að hita sig upp fyrir nýtt ár.
Hljómsveitirnar munu skarta sínum skærasta í sérstökum hátíðarbúningi og lofa einstakri upplifun. Þess vegna verður að teljast mjög líklegt að eitt eða tvö jólalög fái að hljóma í meðförðum sveitanna á tónleikunum.
Gamla bíó er líka einkar viðeigandi tónleikastaður fyrir kvöldstund sem þessa. Húsið hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga undanfarið en staðurinn skartar að margra mati besta tónleikasal landsins.
Móses Hightower
Hljómsveitin gaf sjálf út plötuna „Búum til börn“ í júlí 2010, og „Önnur Mósebók“ kom út hjá Record Records í ágúst 2012. Báðar hafa plöturnar fengið framúrskarandi góða dóma og selst vel, sem og hljómað linnulítið á öldum ljósvakans. Önnur Mósebók var valin plata ársins í Fréttablaðinu, en fyrir hana hlaut sveitin Íslensku tónlistarverðlaunin 2012 sem lagahöfundar ársins og textahöfundar ársins, sem og Menningarverðlaun DV 2012 í tónlistarflokki. Nýlega kom út endurhljóðblönduð útgáfa af plötunni „Önnur Mósebók“ undir heitinu „Mixtúrur úr Mósebók” þar sem fjölmargir góðkunningjar hljómsveitarinnar lögðu hönd á plóg.
Ylja
Hljómsveitin Ylja kom sem stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlíf á síðasta ári og vakti mikla athygli fyrir grípandi, fjölbreyttar og spennandi lagasmíðar og frábæran flutning. Lag þeirra Út klifraði hátt á Vinsældalista Rásar 2 og sveitin átti eftirminnilega innkomu í áramótaþætti Hljómskálans. Frumburður sveitarinnar, sem er samnefnd hljómsveitinni, kom út í nóvember á síðasta ári en þar leitaðist Ylja við að fanga hina einstöku stemningu sem einkennir sköpun og lifandi flutning hljómsveitarinnar.
Snorri Helgason
Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason hefur á undanförnum árum skapað sér gott orð í tónlistarheiminum bæði innanlands sem utan. Tónlist Snorra er nokkurs konar þjóðlagapoppbræðingur þar sem sterkar melódíur og kassagítarinn eru í forgrunni. Hljómsveitin Snorri Helgason er skipuð ásamt Snorra þeim Guðmundi Óskari Guðmundssyni (Hjaltalín, Tilbury o.fl), Daníel Friðriki Böðvarssyni (Moses Hightower), Magnúsi Trygavasyni Eliassen (Amiina, Sin Fang, Adhd o.fl.) og Sigurlaugu Gísladóttur (múm & Mr. Silla). Þessi hópur hafði verið að spila tónlist Snorra á tónleikum í u.þ.b. tvö ár áður en þau ákváðu að taka skrefið til fulls og stofna hljómsveit um það leiti sem vinnan við upptökur á Autumn Skies hófust haustið 2012. Sú plata kom út fyrir stuttu síðan og hefur fengið feykilega góðar viðtökur.
Miðaverð er einungis 3.900 krónur og selt er í númeruð sæti. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 21:00 en húsið opnar klukkutíma fyrr.