Hádegistónleikaröð Tónlistarfélags Akureyrar, Föstudagsfreistingar er löngum orðin þekkt meðal Akureyringa.
Að þessu sinni koma fram Margrét Árnadóttir söngkona og Daníel Þorsteinsson píanóleikari og flytja ljóð sem fjalla um blóm.
Þegar vorar byrjar náttúran að taka við sér og blómin lifna við. Blóm koma víða fyrir í ljóðum og hafa mörg hver ákveðna dulda merkingu. Margrét og Daníel leiða okkur inn í vorið og flytja íslenska og erlenda ljóðatónlist þar sem blóm koma fyrir.
Margrét Árnadóttir hóf söngnám við Tónlistarskólann í Mosfellsbæ og hélt því söngnámi áfram á Akureyri þar sem hún lagði stund á kennaranám við Háskólann þar í bæ. Svo snéri hún aftur í stórborgina og hóf nám við Söngskólann í Reykjavík og lauk þaðan burtfararprófi vorið 2001. Þá hélt hún til Vínarborgar í Austurríki og lauk námi við Ljóða- og Óratoríudeild Tónlistarháskólans þar í borg 2003 og ári seinna frá Óperudeild skólans. Eftir það fluttist hún til Stuttgart í Þýskalandi þar sem hún skrapp í verkefni hjá Piccolo-óperunni sem sérhæfir sig í að flytja vasaútgáfur af óperum fyrir börn. Eftir að hún flutti aftur heim til Íslands starfaði hún sem grunnskólakennari í nokkur ár.
Margrét hefur í gegn um árin komið fram sem einsöngvari við ýmis tækifæri, tók hún þátt í uppfærslu Borgarleikhússins á söngleiknum Söngvaseiður, þar sem hún gekk tímabundið í klaustur. Einnig hefur hún haldið ýmsa einsöngstónleika með þemabundnum efnisþræði. T.a.m. Álfatónleika í Listasafni Mosfellsbæjar með Iwonu Ösp Jagla, Vetrarsálmar í Víðistaðakirkju ásamt Baldvini Eyjólfssyni gítarleikara svo fátt eitt sé nefnt. Nú starfar hún sem söngkennari og forskólakennari við Tónlistarskólann á Akureyri.
1862 Nordic Bistro matreiðir súpu sem tónleikagestir geta notið á meðan tónleikum stendur.