Quantcast
Channel: Miði.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 2696

Voces Thules in Concert -

$
0
0

Voces Thules

Aðal viðfangsefni Voces Thules á þessum tónleikum er pólitísk og persónuleg umbrot sem og samfélagslegur harmleikur er lesa má í kveðskap Íslendingasagna. Kvæðin túlka á áhrifamikinn hátt vald náttúrunnar og mátt hugans. Tónlistin er byggð á söng við undirleik miðaldahljóðfæra sem fornar heimildir herma að til hafi verið á Íslandi. Eina drápu víkinganna, Höfuðlausn, orti Egill Skallagrímsson (d. u.þ.b. árið 1000) sér til lífsbjargar þegar Eiríkur Blóðöxi konungur, hugðist taka hann af lífi.

Hluti efnisskrárinnar er úr Sturlungu. Sturlunga segir sögu Örlygsstaða bardaga sem háður var 21. ágúst 1238 þar sem tvær voldugar ættir tókust á um völd og auð. 

Um Voces Thules

Sönghópurinn Voces Thules var stofnaður 1991. Voces Thules hefur náð að skipa sér sess sem einn helsti tónlistarhópur á Íslandi á sínu sviði og verið leiðandi afl í rannsóknum og flutningi á íslenskri tónlistarhefð miðalda.  

Viðamesta verkefni hópsins til þessa er heildarflutningur, hljóðritun og útgáfa á “Þorlákstíðum”, einu því merkasta af íslenskum tónlistarhandritum. 

 “Sék eld of þér”, geisladiskur ásamt veglegum bæklingi á þremur tungumálum, kom út í febrúar 2009. Í tengslum við þessa áherslu á miðaldir hefur hópurinn komið sér upp góðu safni miðaldahljóðfæra. 

Voces Thules hefur haldið tónleika víða um heim ásamt því að koma fram á tónleikum víðsvegar hér innanlands. Árið 2006 hlaut hópurinn Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir útgáfu sína á “Þorlákstíðum”.

Meðlimir Voces Thules eru: 

Arngerður María Árnadóttir
Eggert Pálsson
Einar Jóhannesson
Eiríkur Hreinn Helgason
Guðlaugur Viktorsson
Sigurður Halldórsson

Auk söngsins leikur hópurinn á margvísleg miðaldahljóðfæri. Sem dæmi má nefna ýmis ásláttar- og hljómborðshljóðfæri, sekkja- og skálmpípur, krummhorn, hjólgígjur, langspil og lýrur. 




Viewing all articles
Browse latest Browse all 2696