Reykholtshátíð 2014
Föstudagur 25. júlí kl 20
Prokofiev - Shostakovich - Vasks
Opnunartónleikar
Á opnunartónleikum Reykholtshátíðar verða flutt verk eftir tvo af risum 20. aldarinnar; sónata fyrir 2 fiðlur eftir Prokofiev og strengjakvartett nr. 7 eftir Shostakovich. Tónleikunum lýkur á hinum magnaða píanókvartett eftir lettneska tónskáldið Peteris Vasks, gríðarlega áhrifamikil tónsmíð með tónmáli sem er öllum aðgengilegt, óháð aldri hlustenda eða kynnum þeirra af nýrri tónlist.
Laugardagur 26. júlí kl 17
Þjóðlegar ástríður
Söngtónleikar með kammerívafi
Hanna Dóra Sturludóttir messósópran og Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari flytja dagskrá þar sem kennir ýmissa grasa. Flutt verða verk eftir m.a. Britten, Grieg og lagaflokkurinn.
Sjö spænskir alþýðusöngvar eftir Manuel de Falla.
Að auki verða leikin íslensks einsöngslög í nýjum útsetningum eftir Þórð Magnússon fyrir messósópran og píanótríó.
Laugardagur 26. júlí kl 20
Noregur - Tékkland
Kammertónleikar
Þjóðleg rómantík ræður ferðinni á þessum tónleikum. Fyrsta verkið er e.t.v. eitt mest spilaða dúó sem hefur verið samið fyrir selló og fiðlu, en það er hin glæsilega Passacaglia eftir Händel sem norska tónskáldið Johan Halvorsen umskrifaði og samdi tilbrigði við. Næst á efnisskránni eru tvö stórkostlega kammerverk frá rómantíska tímabilinu, en þau eru strengjakvartett nr. 1 eftir Grieg og píanótríóið í g-moll eftir Smetana.
Sunnudagur 27. júlí kl 16
Frá Händel til Huga
Lokatónleikar
Á þessum tónleikum verður frumflutt nýtt verk eftir Huga Guðmundsson, sem Reykholtshátíð pantaði sérstaklega af þessu tilefni. Verkið er skrifað fyrir píanókvintett og söngrödd og kallast
Söngvar úr Hávamálum II.
Að auki verður flutt útsetning af tríósónötu eftir Händel fyrir 2 selló og píanó. Reykholtshátíð lýkur á hinum tilfinningaríka píanókvintett eftir César Franck, einstöku verki sem ekki ætti að láta neinn ósnortinn.