Vinirnir og söngvaskáldin Svavar Knútur og Kristjana Stefáns koma aftur saman á sínum árlegu miðsumarstónleikum í sjóminjasafninu Víkinni, laugardagskvöldið 28. júní nk. og eiga saman dásamlega dúettastund.
Kristjana og Svavar Knútur hafa undanfarin ár vakið verðskuldaða athygli fyrir stórskemmtileg dúettakvöld. Þar ríkir bæði gleði og angurværð ásamt örlitlum fíflagangi og bera þau vinirnir á borð fjölbreytta dagskrá dúetta, sem rúmar allt frá Abba til Dolly Parton með viðkomu hjá Nick Cave og Páli Ísólfssyni, auk frumsaminna laga og hinna ýmsu gleði- og tregabomba. Í ár munu lög um sjóinn ráða ríkjum og söngvar um samskipti manns og hafs eiga sinn stað, auk hefðbundinna ljúfra ballaða um ástina og lífið.
Tónleikarnir hefjast kl. 20, en einnig verður boðið upp á miðnæturtónleika fyrir þá sem eftir því sækjast og hefjast þeir kl. 22.30 Ef veður leyfir verða tónleikarnir úti á bryggju, en ef veðurguðirnir ygla sig og gretta verður flúið inn í kaffihúsið og kósýkvöldsstemmningin verður allsráðandi.
Við bendum gestum á að í Víkinni er dásamlegur veitingastaður sem gerir vel við fólk í mat og drykk og er um að gera að mæta snemma og fá sér gott að borða.
Kristjana og Svavar hafa síðan 2008 haft unun af því að syngja saman dúetta og komið fram víða um land við gríðargóðar undirtektir. Þau gáfu út dúettaplötuna Glæður árið 2011 og hefur hún hlotið bráðgóðar viðtökur.
Best er að tryggja sér miða í tíma, enda takmarkaður miðafjöldi í boði. Börn eru hjartanlega velkomin með og ókeypis fyrir þau.