
Leiftur frá liðnum tíma er yfirskrift góðgerðartónleika sem Baldursbræður bjóða til í Háskólabíói, sunnudaginn 27. apríl. Þetta er þriðja árið í röð sem efnt er til góðgerðartónleika. Fyrri tvö árin nutu Líknardeild LSH í Kópavogi og Fríðuhús, dagþjálfun Félags áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúklinga og annarra skyldra sjúkdóma ágóðans. Nú er það Reykjadalur, sumar- og helgardvalarstaður í Mosfellsdal fyrir fötluð börn og ungmenni sem nýtur afrakstursins. Þar er boðið upp á ævintýradaga í frábæru umhverfi fyrir fötluð börn og ungmenni á aldrinum 8 ára til 21 árs. Starfið í Reykjadal er fjölbreytt og skemmtilegt og lýsa einkunnarorðin gleði - árangur - ævintýri dvölinni vel en lögð er áhersla á íþróttir og leiki, útivist og sköpun. Árlega dveljast í Reykjadal um 230 börn í sumardvöl alls staðar að af landinu, flest þó af Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu. Þá nýta um 170 einstaklingar sér helgardvölina á hverju ári.
Hljómsveit Baldursbræðra hefur verið starfandi um margra ára skeið og m.a. komið fram á samkomum Baldurs. Baldursbandið leikur og syngur á skemmtuninni 27. apríl nk. , brot af þeim perlum sem nutu hvað mestra vinsælda á árunum 1965-1970. Þar glitrar á margan gimsteininn og af nógu er að taka. Auk þess mun fjöldi fólks, innan reglunnar sem utan, leggja verkefninu lið. Þar má nefna Drengjakór St. Nr. 10 Þorfinns Karlsefnis, Ragnheiði Gröndal, Hauk Gröndal, Ara Jónsson, Svein Guðjónsson, Skátakórinn, Kór Lækjarskólaog síðast en ekki síst, Ragnar Bjarnason. Fleira gott fólk mun koma fram á sviðinu í Háskólabíói, þeirra á meðal leynigestur sem kann sitthvað í söng.
Umfram allt er ætlunin að gestir sem sækja tónleikana í Háskólabíói, taki hraustlega undir í söng og skemmti hver öðrum.