
Ómar æskunnar
Sögur af sérstæðu fólki
Ómar Ragnarsson er byrjaður að segja ævisögu sína í leikhúsinu í stað þess að skrifa hana á bók.
Í Gaflaraleikhúsinu sunnudaginn 23. febrúar kl. 20.00 og næstu sunnudaga á eftir segir hann fyrsta hluta hennar í tilfþrifamikilli og einlægri frásögn af litskrúðugu fólki, sem hafði áhrif á hann í æsku, og mótaði viðfangsefni hans, fólk og fyrirbæri, síðar meir.
Ævi og dramatísk sambúð foreldra hans og ótrúlega fjölskrúðugur frændgarður er grunnur frásagnarinnar. Þetta er öðruvísi Ómar sem spannar allan skalann í andstæðum gleði og harms, ekki bara með gegnumgangandi leiftrandi húmor, sem nær út yfir gröf og dauða, heldur djúpri alvöru í bland, þegar örlagadísirnar spinna þræði sína. Þetta var upplifun sem hafði einna mest áhrif á hann í allri hans mótunarsögu. Þarna varð sviðsmaðurinn, uppistandarinn og sendiboðinn Ómar til. Þessi kvöldstund með Ómari er því einstök sýn á líf þessa ástmögurs þjóðarinnar og skemmtun á heimsmælikvarða.