
Jazztrompetleikarinn ástsæli, Wynton Marsalis, mun koma fram í Eldborgarsal Hörpu þann 4. júlí næstkomandi ásamt hljómsveit sinni Jazz at the Lincoln Centre Orchestra.
Marsalis ( fæddur 1961) er einn þekktasti og virtasti jazztónlistarmaður heims og hefur einnig samið fjölmörg tónverk. Hann hefur flutt tónlist úr öllu litrófi jazztónlistarinnar, jafnt hefðbundinn jazz frá New Orleans sem be-bop og nútímajazz. Marsalis hefur hlotið fjölmörg verðlaun, meðal annars níu Grammy verðlaun og er eini jazzleikari heims sem hefur hlotið Pulitzer tónlistarverðlaunin fyrir verk sitt „Blood on the Fields“.
Hann er listrænn stjórnandi hljómsveitarinnar Jazz at Lincoln Center sem kemur fram með honum í Hörpu í júlí. Sveitin er talin vera einhver besta stórsveit í heiminum og telur fimmtán meðlimi, auk Marsalis.