
Gamlársdansleikur Stebba Ó. swingsextett og Secret Swing Society
Þann 26. desember næstkomandi verður sleginn upp dansleikur í Iðnó þar sem sveiflan verður ríkjandi en þá munu sveitirnar Stebbi Ó. swingsextett og Secret Swing Society deila með sér senunni fram eftir nóttu.
Stebbi Ó. swingsextett er hljómsveit af gamla skólanum þar sem jafnt sveifla, rokk og ról, hugljúf dægurtónlist og smellir 5. og 6. áratugarins, íslenskir jafnt sem erlendir, fá sitt sæti á settlistanum. Vel þótti takast til þegar að Stebbi Ó. blés til gamlársdansleiks á milli jóla og nýárs í fyrra og þótti því ekki spurning að endurtaka leikinn.
Til að kóróna kvöldið ætla Secret Swing Society að stilla saman strengi sína eins og þeim einum er lagið. Secret Swing Society heldur uppi heiðri gullaldardjassins sem spannar frá þróttmikilli sveiflu Duke Ellington, þýðum söng Mills Brothers til fjörugs gítarplokks Django Reinhardt. Hljómsveitin hefur verið starfandi í 3 ár og varð til þegar meðlimir, sem koma frá Íslandi, Frakklandi og Litháen, lærðu saman í Tónlistarháskólanum í Amsterdam.
Toppiði jólahátíðina og fjölmennið á dansleik upp á gamla mátann sem er í senn kvöldstund með notalegri tónlist í Iðnó við Tjörnina!