Söngvararnir Einar Ágúst Víðisson, Gunnar Ólason, Hreimur Heimisson og Magni Ásgeirsson blása til jólatónleika í Bæjarbíói 29. nóvember næstkomandi.
Þessa herramenn þarf vart að kynna fyrir neinum en þeir hafa staðið í framlínunni hjá hljómsveitunum Skítamóral, Landi og sonum og Á móti sól. Þannig hafa þessir kappar sungið mörg vinsælustu lög síðustu ára bæði með sínum sveitum og öðrum.
En þessir drengir hafa ekki bara tryllt lýðinn á böllum og Þjóðhátíðum svo fátt eitt sé nefnt, þeir hafa einnig sungið mörg vinsæl jólalög.Þar má nefna lög á borð við Komdu um jólin, Handa þér, Tendrum minningar, Þegar jólin koma og Jólasynir.
Þetta kvöld munu félagarnir flytja okkur jólalög, ásamt annarri skemmtilegri tónlist sem þeir munu leika og leyfa okkur að heyra sögurnar í kringum.
Það mun því ríkja sannkölluð jólapartýstemmning í Bæjarbíói í nóvemberlok með þessum ástsælu söngvurum og þeirra fríða föruneyti.
Hljóðfæraleikarar eru:
Þórir Úlfarsson ................................... Hljómborð og raddir
Árni Ólason ........................................ Bassi
Stefán Ingimar Þórhallsson ............ Trommur