Sumardeginum fyrsta verður fagnað í Mengi með tveimur kanónum, þeim Kjartani Sveinssyni og Skúla Sverrissyni. Hvor fyrir sig hafa þeir átt fádæma farsælan feril þar sem þeir hafa spilað á ólík hljóðfæri, ferðast um heiminn með tónlist sína og unnið að fjölbreytilegum verkefnum þvert á alla miðla með frábæru samstarfsfólki. Undanfarna mánuði hafa þeir Kjartan og Skúli unnið að upptökum á nýrri plötu sem markar upphaf samstarfs þeirra sem dúett þar sem Kjartan leikur á píanó og Skúli á bassa. Tónlistin er öll frumsamin sérstaklega fyrir þetta verkefni og verður um frumflutning að ræða á hluta hennar þetta rafmagnaða kvöld.
Kjartan Sveinsson er best þekktur fyrir verk sín með hljómsveitinni Sigur Rós, ekki síst fyrir áleitnar píanómelódíur. Eftir að hann sagði sig úr Sigur Rós sneri hann sér alfarið að að tónsmíðum og margvíslegum listtengdum verkefnum, svo sem leikhúsverkum, tónlist fyrir kvikmyndir, innsetningum og framleiðslu kvikmynda svo fátt eitt sé nefnt. Af verkum Kjartans mætti nefna Stríð og Der Klang der Offenbahrung des göttlichen með Ragnari Kjartanssyni og tónlistina við Eldfjall og Síðasta bæinn eftir Rúnar Rúnarsson. Kjartan hefur einnig látið til sín taka sem upptökustjóri. Ber þar helst að nefna upptökustjórn á sveinsstykki Ólafar Arnalds, Við og við og stórvirkið I must be the devil með Kristínu Önnu en báðar plöturnar hafa vakið mikla athygli.
Skúli Sverrisson átti fyrst erindi í tónlist sem bassaleikari, en á síðustu þremur áratugum hefur hann byggt upp einstakan feril sem byggir á eigin tónsmíðum og flutningi eigin tónlistar annars vegar og hins vegar margbreytilegu samstarfi við breiðan hóp alþjóðlegra listamanna í fremstu röð, mest í New York. Auk þess að spila á margvísleg hljóðfæri hefur Skúli náð að mynda sér einstaka rödd á sitt hljóðfæri, sem líkist helst heilli strengjasveit í meðfórum hans. Af samstarfsfólki Skúla mætti nefna Bill Frisell, Ryuichi Sakamoto, Jóhann Jóhannsson, Blonde Redhead, Megas, Laurie Anderson, Víking Heiðar Ólafsson, Ólöfu Arnalds og Ham.
Húsið opnar kl. 20:30 | Miðaverð er 2.500 krónur.