EINAR BÁRÐAR FAGNAR 20 ÁRA HÖFUNDARAFMÆLI Í HVÍTA HÚSINU SELFOSSI
Einar Bárðarson fagnar 20 ára höfundarafmæli sínu með sögustund og „singalong“ tónleikum í Hvíta Húsinu ásamt fríðu föruneyti. Þar fagnar Einar einnig 20 ára ferli sínum sem dægurlagahöfundur. Í vor voru 20 ár frá því lagið Farin kom út með hljómsveitini Skítamóral en lagið varð þeirra allra vinsælasta og sló í gegn nánast á einni nóttu. Svo fylgdu lögin eitt af öðru sem heimsóttu þann ágæta lista; Birta, Spenntur, Myndir, Ennþá, Ég sé þig og fleiri og fleiri.
Fleiri stig á Parken en íslenska landsliðið
Einar sigraði í forkeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva en við það varð hann „heimsþekktur“ á Íslandi en í framhaldi af sigrinum upphófst mikil og dramatísk deila við Útvarpsráð um það á hvaða máli yrði sungið í keppninni erlendis. Sjálfsagt mun það aldrei liggja fyrir hvort lagið hefði aflað landi og þjóð fleiri stigum það árið á íslensku en lagið halaði á endanum inn þremur stigum frá Evrópu það örlagaríka kvöld 12. maí 2001. Það kom Einari beint í næst neðsta sætið það árið. Þrjú stig þykja þó alla jafna ágætur árangur á Parken þar sem keppnin fór fram.
Ekki þekktur sem flytjandi
Lög Einars hafa alltaf fengið ágætan meðbyr í útvarpi og þrátt fyrir að mörg laganna séu kominn á tvítugsaldurinn heyrast þau enn með jöfnu milli bili á stærstu útvarpstöðum landsins. Einar hefur þó nokkuð fágæta stöðu í hópi dægurlaga höfunda á Íslandi þar sem hann er einn örfárra sem aldrei hefur flokkast sem flytjandi enda hefur hann aldrei gefið út efni undir eigin nafni eða komið fram sem slíkur.
Plata og tónleikar í eigin nafni
Nú hefur hins vegar verð gerð örlítil dagskrárbreyting út frá þessari hefð en í tilefni áfangans er verið að vinna hljómplötu með vinsælustu lögum Einars þar sem hann mun taka þátt í flutningnum. Tónleikarnir í Hvíta Húsinu eru þannig liður í því en þar mun Einar koma fram ásamt völdu tónlistarfólki og nokkrum valinkunnum söngvurum sem bæði hafa unnið með Einari áður og öðrum sem aldrei hefur tekist á við efni frá Einari. Á tónleikunum mun Einar fara yfir sögurnar á bak við sín vinsælustu lög og flytja þau með sínu nefi ásamt vinum og félögum.
Gestir í sérflokki
Hljómsveitina skipa þeir Þórir Úlfarsson á píanó og hammond, Eiður Arnarson á bassa, Hannes Friðbjarnarson á trommur og þeir Kristján Grétarsson og Pétur Valgarð Pétursson á gítara. Sérstakir gestir verða meðal annarra Einar Ágúst Víðisson og Gunnar Ólason úr Skítamóral ásamt fleirum.
Brot af því besta
Brot ef því besta frá Einari á þremur og hálfri mínútu
Yfirferð með Kjartani Atla í Íslandi í dag
Ný plata með nýjum útgáfum og helstu perlum Einars
Það er tónlistarmaðurinn og upptökustjórinn Þórir Úlfarsson sem stýrir upptökum á plötunni en hún verður bæði ljúf og hrjúf í anda höfundarins með Nashville áhrifum, en Einar hefur alla tíð sótt sinn innblástur til amerískrar country-skotinnar dægurtónlistar. Á plötunni er ætlunin að setja ákveðna heildarmynd á þessi vinsælustu lög hans og hugmyndin að þessi helstu verk höfundar fái nýtt og heimilislegt líf í flutningi hans og félaga.Platan hefur fengið nafnið „Myndir“ sem er vitaskuld tilvísun í eitt þekktasta lag Einars en um leið eru lögin hversdagslýsingar á lífi fólks eða myndir af lífi þeirra eins og höfundurinn útskýrir nafngiftina. Platan mun koma út í haust en upptökur er langt komnar.