Gioachino Rossini (1762-1868) er langþekktastur fyrir óperur sínar sem voru 39 að tölu. Árið 1863 samdi hann Petite messe solennelle (Litlu hátíðarmessuna) að því talið er að beiðni Alexis Pillet-Will greifa í Passy í París, sem tileinkaði hana Louisu eiginkonu sinni. Sumir telja að Rossini hafi ort þetta kirkjutónverk af eigin hvötum en ekki endilega fyrir greifann, enda héldu þau Rossinihjónin gjarnan laugardagstónleika með ýmiss konar kammertónlist. Þrjátíu og fjögur ár voru liðin frá því Rossini hafði skrifað óperu og hann lýsti Litlu messunni sem einu af sínum síðustu elliglöpum. Hann kallaði þessa fullvöxnu messu litla, sem er alger gamansemi, og skrifaði á lokasíðu handritsins:
,,Almáttugur minn. Nú er ég búinn með þetta litla messugrey. Ég er sem sagt búinn að semja kirkjutónlist, eða kannski frekar kirkjulega tónlist. Ég, sem var fæddur til að skrifa óperur, eins og þú veist mætavel. Þetta er ekkert tækniundur, bara talsvert af tilfinningu, ekkert umfram það. Kveðjur til þín og taktu frá fyrir mig pláss í Paradís."
Messan er með texta hefðbundinnar hátíðarmessu. Höfuðkaflarnir eru fimm, Kyrie (miskunnarbæn), Gloria (dýrðarsöngur), Credo (trúarjátning), Sanctus (heilagur ert þú) og Agnus Dei (lamb guðs). Innan um og saman við eru svo aríur og sönglög, sem minna örlítið á óperuskáldið. Upprunalega útsetti Rossini verkið fyrir tvö píanó og orgelharmóníum í 18. aldar napolískum anda. Og í handriti sínu tók hann fram að söngvararnir ættu að vera tólf talsins af þremur kynjum (!), körlum, konum og geldingum. Alls væru þetta tólf englar, einsöngvararnir fjórir og kórsöngvararnir átta.
Messan var frumflutt 14. mars 1864 heima hjá Rossinihjónunum í húsi Louisu greifynju í Passy með þeirri hljómsveitar- og söngvaraskipan sem hér var lýst. Þremur árum síðar gekk tónskáldið frá hljómsveitarútsetningu á messunni, en er sagður hafa unnað mest hinni einföldu og upprunalegu.
Margir hafa þóst finna ýmis óperuleg einkenni í þessari messu Rossinis, og það er ekkert undarlegt. Þeir viðurkenna þó nánast allir að helgi og hátíðleiki séu þrátt fyrir allt einkennandi fyrir þetta verk og þess vegna lifir það enn í hópi kirkjulegra tónverka.
Flytjendur:
Kór Akureyrarkirkju
Stjórnandi Michael Jón Clarke
Helena Bjarnadóttir sópran
Guðrún Ösp Sævarsdóttir alt
Elmar Gilbertsson tenór
Oddur Arnþór Jónsson bassi
Sigrún Magna Þórsteinsdóttir orgel
Daníel Þorsteinsson píanó
Akureyrarstofa styrkir viðburðinn
