Hugrún ætlar að blása til styrktartónleika fimmtudaginn 5. apríl næstkomandi. Fram koma Friðrik Dór, Árný, Soffía Björg og Atli Jasonarson. DJ Dóra Júlía mun þeyta skífum í byrjun kvölds og á milli atriða og Karen Björg verður kynnir. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 en húsið opnar 20:00. Aðgangsmiðinn er á 2500 kr. og allur ágóðinn rennur beint í starfsemi Hugrúnar. Eins verður hægt að kaupa bol með Hugrúnar Logo-inu á staðnum og við tökum glöð á móti frjálsum framlögum.
Hugrún er Geðfræðslufélag sem er rekið í sjálfboðaliðastarfi af nemendum við Háskóla Íslands og hefur það að markmiði að fræða ungt fólk um geðheilbrigði, geðsjúkdóma og úrræði, sem og að auka samfélagslega vitund.
Síðan Hugrún var stofnuð hefur félagið staðið fyrir málþingi, haldið fræðslur fyrir foreldrafélög, farið í samstarf með Útmeðþað og gaf nýverið út herferð sem ætlað er vekja fólk til umhugsunar um geðheilbrigði og geðraskanir. Herferðina má nálgast á gedfraedsla.is/hugud. Helsta verk Hugrúnar er þó að halda fræðslufyrirlestra í framhaldsskólum um land allt auk þess sem nýverið fór af stað vinna við að halda fræðslur í grunnskólum.
Þar sem Hugrún er rekin á sjálfboðaliðastarfi, styrkjum og frjálsum framlögum þá skipta fjáraflanir líkt og þessi miklu máli til að Hugrún geti starfað og haldið fræðslur sem víðast. Við vonumst til að flestir vilji leggja félaginu lið og komi og skemmti sér með okkur þetta kvöld.
Við viljum sérstaklega þakka öllum listamönnunum og öðru frábæru fólki sem kemur að framkvæmd tónleikanna, Kex Hostel og miði.is.
Miðasala fer fram á midi.is og einnig verður selt við hurð ef rými leyfir.