Hátíðarhljómar við áramót (ATH BREYTTAN TÍMA!)
Hátíðartónlist fyrir 3 trompeta, orgel og pákur.
Trompetleikararnir Eiríkur Örn Pálsson, Einar St. Jónsson og Baldvin Oddsson, Eggert Pálsson pákuleikari og Hörður Áskelsson organisti Hallgrímskirkju flytja glæsileg hátíðarverk frá barokktímanum, m.a. J.S. Bach ( Tokkata og fúga í d-moll) og Albinoni ( Adagio).
Þetta er í 25. sinn sem Listvinafélag Hallgrímskirkju býður upp á tónleika undir yfirskriftinni Hátíðarhljómar við áramót. Áramótastemmningin byrjar með hátíðarhljómum þeirra félaga, enda njóta þessir tónleikar gríðarlegra vinsælda og hafa þeir leikið fyrir fullu húsi á gamlárskvöld allt frá vígslu Klais orgelsins 1992. Lúðraþytur og trumbursláttur hafa um aldir tengst hátíðum. Fyrirmyndir þess má finna í elstu sálmabók kirkjunnar, Saltaranum, þar sem Drottinn er lofaður með bumbum og málmgjöllum. Lúðraköll - fanfarar tengjast bæði konunglegum lífvörðum og herkvaðningum af ýmsum toga og í kirkjunni hafa þessi hljóðfæri meðal annars verið notuð þegar upprisu Krists er fagnað á páskum og með dýrðarsöng englanna á Betlehemsvöllum.
Flest verkin eiga uppruna sinn á barokktímabilinu. Á efnisskránni eru fanfarar og hátíðleg tónlist. Meðal þeirra eru Forleikur að Te Deum eftir Charpentier (EBU lagið) Hörður leikur hina þekktu Tokkötu í d-moll eftir Bach. Þá má ekki gleyma hinu fræga Adagio eftir Albinoni sem Ítalinn Giazotto umritaði.
Eiríkur Örn Pálsson, Einar St. Jónsson og Baldvin Oddsson luku allir tónlistarnámi við Tónlistarskólann í Reykjavík áður en þeir fóru til framhaldsnáms í Bandaríkjunum. Baldvin lauk BM prófi frá Manhattan School of Music í New York í des. 2016, Eiríkur lauk BA prófi frá Merklee College of Music í Boston og MFA gráðu frá Californian Institute of the Arts í Los Angeles og Einar BM prófi frá Indiana University. Í dag leika þeir allir með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk þess að vera mjög virkir í tónlistarlífi höfuðborgarsvæðisins. Þeir hafa leikið með Kammersveit Reykjavíkur og Hljómsveit Íslensku óperunnar, leikið í ýmsum stórsveitum, svo sem Stórsveit Ríkisútvarpsins og Stórsveit Reykjavíkur auk þess sem Eiríkur er einn af stofnfélögum Caput hópsins. Þá hafa þeir leikið einleik með þessum hljómsveitum. Einnig kenna Eiríkur og EInar trompetleik við ýmsa tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu.
Eggert Pálsson stundaði nám á píanó og slagverk við Tónlistarskólann í Reykjavík og hélt þaðan til Vínar í Austurríki þar sem hann lagði stund á slagverksnám við Tónlistarháskólann í Vín. Hann hefur lengi verið fastráðinn pákuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands auk þess að taka þátt í fjölbreytileika íslensks tónlistarlífs undanfarna þrjá áratugi. Hann er félagi í slagverkshópnum Benda og Kammersveit Reykjavíkur. Hann hefur einnig leikið með tónlistarhópnum Caput og er félagi í sönghópnum Voces Thules sem flytur margar tegundir söngtónlistar. Hörður Áskelsson hefur verið organisti og kantor Hallgrímskirkju frá því hann lauk framhaldsnámi í Düsseldorf í Þýskalandi árið 1982. Hann hefur gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu listalífs kirkjunnar og stóð meðal annars að stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju, Kirkjulistahátíðar og Alþjóðlegs orgelsumars. Árið 1982 stofnaði hann Mótettukór Hallgrímskirkju og kammerkórinn Schola cantorum árið 1996. Hörður hefur hlotið margsháttar viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á Íslandi þ.á.m. Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004, Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2001, Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2006 og 2002 var hann útnefndur Borgarlistamaður Reykjavíkur. Hörður hefur kennt orgelleik og kórstjórn við Tónskóla þjóðkirkjunnar og gegndi embætti Söngmálastjóra þjóðkirkjunnar árin 2005-2011. Hann hefur gefið út nokkra orgeldiska og kom sá nýjasti út 2014 og hefur notið mikilla vinsælda. Hörður hefur verið fulltrúi Íslands á tónlistarhátíðum víða um heim og haldið einleikstónleika víða um Evrópu í mörgum frægum kirkjum, m.a. Kölnardómkirkju, St. Sulpice í París o.fl.
Sjá nánar á LISTVINAFELAG.IS -JÓLATÓNLISTARHÁTÍÐ HALLGRÍMSKIRKJU 2017