Stutt lýsing: Á Alþjóðlegu orgelsumri 2017, sem er nú haldið 25. sumarið í röð koma fram afburða konsertorganistar í fremstu röð frá ýmsum löndum. Á fyrstu fimmtudagstónleikum sumarsins fáum við að njóta þess að hlusta á Elísabetu Þórðardóttur orgel, og Baldvin Oddsson trompet, leika saman fyrir okkur verk eftir Viviani, Purcell og Telemann. Einnig flytur Elísabet einleiks verk á Klaisorgelið eftir Bach og Alain.
Elísabet Þórðardóttir lauk burtfararprófi í píanóleik frá Nýja Tónlistarskólanum árið 2001 þar sem kennarar hennar voru Ragnar Björnsson og Rögnvaldur Sigurjónsson. Árin 2001-2004 lagði hún stund á framhaldsnám í píanóleik við Musikhochschule Luzern í Sviss. Elísabet hóf nám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2012 og lauk þaðan kantorsprófi í maí 2017 undir handleiðslu Björns Steinars Sólbergssonar. Hún hefur starfað sem píanókennari og undirleikari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar síðan 2006 og verið organisti Kálfatjarnarkirkju síðan 2012.
Baldvin Oddsson hóf trompetnám við Tónskóla Sigursveins fimm ára gamall og lauk þaðan framhalds-og burtfararprófi með tónleikum í Seltjarnarneskirkju 10 árum síðar. Baldvin hefur síðan verið við tónlistarnám í Bandaríkjunum, fyrst við Interlochen Arts Academy í Michigan, þá við San Francisco Conservatory of Music og loks veturlangt hjá trompeteinleikaranum Stephen Burns í Chicago. Baldvin lauk námi við Manhattan School of Music í desember 2016. Í Michigan bar hann sigur af hólmi í einleikarakeppni skólans og lék í kjölfarið einleik með skólahljómsveitinni. Baldvin vann einnig keppni ungra einleikara með Sinfóníuhljómsveit Íslands og lék einleik með hljómsveitinni auk þess að leika margoft með trompetdeild hljómsveitarinnar. Baldvin kom fram á Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju 2013 ásamt kennara sínum, trompetvirtúósnum Steven Burns.
EFNISSKRÁ:
Johann Sebastian Bach 1685-1750 Tokkata BWV 593
Giovani Buonaventura Viviani 1638-1693 Sonata prima
Johann Sebastian Bach 1638-1693 Largo e spiccato
úr Konsert í d moll BWV 596
Georg Philipp Telemann 1638-1693
Úr / From: Die Heldenmusik (12 Märsche)
Jehan Alain 1911-1940 Litanies
Henry Purcell 1659-1695 Trumpet Voluntary