Glæsilegir hátíðartónleikar í tilefni af 35 ára afmæli Mótettukórs Hallgrímskirkju (1982-2017) verða haldnir 10. og 11. júní í samstarfi við Listvinafélag Hallgrímskirkju. Við þetta tilefni verður flutt hið stórfenglega meistaraverk, J. S. Bachs, Messa í h-moll. Verkið er eitt stórbrotnasta barokkverk allra tíma og við hæfi að flytja það á afmæli kórsins því kórkaflar verksins eru hreinlega kynngimagnaðir og ótrúlega fjölbreyttir.
Aðrir flytjendur eru í heimsklassa. Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju snýr aftur en sveitin er skipuð einvala liði barokkhljóðfæraleikara víða að úr heiminum. Hljómsveitin hefur reglulega komið fram með kórum Hallgrímskirkju á síðasta áratug , og var flutningur sveitarinnar á Solomon eftir Handel á Kirkjulistahátið 2015, ásamt Mótettukórnum, einsöngvurum og Herði Áskelssyni stjórnanda, tilnefndur til íslensku tónlistaverðlaunana. Konsertmeistari Alþjóðlegu barokksveitarinnar er Tuomo Suni.
Einsöngskaflar messunnar eru stórkostlegir og einsöngvararnir frábærir en þau eru hin hálfíslenska/hálfskoska sópransöngkona Hannah Morrison, enski kontratenórinn Alex Potter og íslenski bassinn Oddur A. Jónsson. Þau Hannah og Alex eru að koma fram í fyrsta sinn í Hallgrímskirkju og eru meðal fremstu barokksöngvara á heimsvísu um þessar mundir. Oddur er meðal vinsælli bassasöngvara hérlendis í dag og hefur margoft sungið í Hallgrímskirkju, bæði með kórum kirkjunnar og sem einsöngvari. Tenórhlutverkið verður tilkynnt mjög fljótlega.
Stjórnandi á tónleikunum er Hörður Áskelsson, organisti og kantor Hallgrímskirkju og listrænn stjórnandi Listvinafélags Hallgrímskirkju.