Hápunktur Kirkjulistahátíðar 2015 verður þegar hin stórfenglega óratóría Händels, Salómon konungur, verður flutt í fyrsta sinn á Íslandi.
Óratórían er í 3 þáttum og segir frá stjórnartíð Salómons konungs sem þótti bæði vitur og réttlátur. Fjallað er um hinn fræga Salómonsdóm og heimsókn sjálfrar drottningarinnar af Saba. Aðdáendur Händels munu sannarlega ekki verða fyrir vonbrigðum með þetta verk, sem er fullt af tilkomumiklum aríum og kórköflum sem spanna allt litróf tilfinninganna.
Flytjendur eru Mótettukór Hallgrímskirkju ásamt Alþjóðlegu barokksveitinni í Den Haag með barokkhljóðfæraleikurum í fremstu röð og hinum heimsþekkta kontratenór Robin Blaze, sem syngur titilhlutverkið Salómon konung. Aðrir einsöngvarar eru Þóra Einarsdóttir, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, Benedikt Kristjánsson og Oddur Arnþór Jónsson. Konsertmeistari er Tuomo Suni. Stjórnandi: Hörður Áskelsson.
Miðaverð 9.900 kr. (úrvalssæti fremst í kirkjunni), 6.900 kr. aftari hluti kirkjunnar og utan súlna. Hálfvirði fyrir námsmenn af lægra verðinu við innganginn.