ÓSÓMALJÓÐ Þorvaldar Þorsteinssonar
í flutningi Megasar og Skúla Sverrissonar
Megas og Skúli Sverrisson, ásamt hljómsveit, frumflytja Ósómaljóð Þorvalds Þorsteinssonar í heild sinni á 29. Listahátíð í Reykjavík. Flestir þekkja Þorvald sem leikskáld, rithöfund og myndlistarmann en færri vita að í honum bjó einnig tónskáld. Nú gefst einstakt tækifæri til að hlýða á tvo af ástsælustu og virtustu tónlistarmönnum þjóðarinnar flytja lögin hans.
Einhvern tíma undir lok níunda áratugarins, þegar Þorvaldur var við framhaldsnám í Hollandi, fór hann í hljóðver ásamt nokkrum hljóðfæraleikurum og tók upp átta lög sem hann hafði samið. Sjálfur söng hann textana. Þessar upptökur lágu ónýttar þar til fyrir nokkrum árum að Þorvaldur leyfði Megasi að heyra þær. Þeir höfðu verið skólafélagar í Myndlista- og handíðaskólanum og unnið saman þegar Megast samdi tónlist við texta Þorvaldar í leikriti hans Lífið – notkunarreglur. Fimm af þeim lögum komu út á plötunni (Hugboð um) vandræði árið 2011. Undirtektir Megasar voru svo góðar að Þorvaldur fór að vinna með lögin aftur og notaði hljómborð sem Helena kona hans gaf honum í jólagjöf en aðeins fáum vikur síðar varð hann bráðkvaddur á heimili þeirra í Antwerpen í Belgíu.
Í ljóðunum tala ímyndaðar persónur sem þusast út í lífið og samfélagið. Þau eru eins og litlir leikþættir og í þeim má greina kjarnann að mörgu sem Þorvaldur átti seinna eftir að láta frá sér fara. Þar má einnig heyra hvernig Þorvaldur hafði strax fundið sinn beitta stíl meðan hann var enn í námi og þau eru mikilvæg viðbót við höfundarverk hans sem spannar tugi bóka og leikrita, auk allra myndlistarsýninganna.
Megas (Magnús Þór Jónsson) er í senn einn ástsælasti og umdeildasti tónlistarmaður þjóðarinnar. Frá því að hans fyrsta plata kom úr árið 1972, hefur hann mótað senu íslenskrar tónlistar og í textum sínum snert á málum sem flestir myndu kalla óþægileg. Í grein frá árinu 2002 lýsti Jónatan Garðarsson Megasi sem óróaseggi íslenskrar dægurtónlistar, skáldi sem færi rokkinu dýpt söngljóðsins og listamanni sem skoði söguna í óvenjulegu ljósi. Eftir Megas liggja, auk á þriðja tug hljómplatna, leikverk, smásögur, ljóð og þýðingar.
Skúli Sverrisson, bassaleikari og tónskáld hefur í yfir tvo áratugi unnið með mörgum þekktum listamönnum úr tónlistarheiminum, t.d. jazzleikurunum Wadada Leo Smith og David Bailey, tónskáldunum Ryuicki Sakamoto, Jóhanni Jóhannssyni og Hildi Guðnadóttir, að ógleymdum Lou Reed og Arto Lindsey. Skúli er þekktur sem listrænn stjórnandi Ólafar Arnalds, fyrir upptökur sínar með Blonde Redhead og sem tónlistarstjórnandi listakonunnar Laurie Anderson.
Þorvaldur Þorsteinsson (1960–2013) lærði myndlist og verk hans hafa verið sýnd á söfnum víða um heim. Hann er þó ekki síður þekktur fyrir ritstörf sín, skáldsögur, barnabækur og leikrit sem líka hafa farið víða í þýðingum á erlendar tungur. Sköpunarorka hans virtist stundum ótæmandi og þótt hann hafi látist langt fyrir aldur fram hafði hann þegar afkastað meiru en flestum tekst á langri ævi.