Óp-hópurinn og Vonarstrætisleikhúsið leiða saman hesta sína á ný og halda afmælistónleika fyrir tónskáldið Richard Srauss. Fyrir tveimur árum síðan héldu þau uppá afmæli Verdi með sýningunni Verdi og aftur Verdi sem var afar vel tekið og fékk 5 stjörnur hjá Fréttablaðinu. Dásamlegir ljóðasöngvar Strauss eru landsmönnum vel kunnir en óperutónlist hans, sem hefur ekki verið mikið flutt hér á landi, er ekki síður áheyrileg. Í þessari sýningu fá áheyrendur að njóta hvoru tveggja auk þess að fræðast um tónskáldið sjálft sem er heiðursgestur á tónleikunum. Með hlutverk Richard Strauss fer einn ástsælasti leikari þjóðarinnar Arnar Jónsson. Sveinn Einarsson leikstýrir og er höfundur handrits. Söngvarar eru Ágúst Ólafsson, Bylgja Dís Gunnarsdóttir, Egill Árni Pálsson, Erla Björg Káradóttir, Hörn Hrafnsdóttir og Jóhanna Héðinsdóttir. Píanóleikarar eru Eva Þyri Hilmarsdóttir og Hrönn Þráinsdóttir.
↧