Quantcast
Channel: Miði.is
Viewing all articles
Browse latest Browse all 2696

Hljóðön - Þangað til - Tónleikar

$
0
0

Sunnudaginn 29. mars kl. 20 verða fjórðu og síðustu tónleikar vetrarins í tónleikaröðinni Hljóðön haldnir í Hafnarborg. Tónleikarnir bera yfirskriftina ...þangað til... og eru það Gunnlaugur Björnsson, gítarleikari og Hafdís Vigfúsdóttir, flautuleikari sem koma fram. Þau munu leika saman tvö verk og einnig flytja nokkur sólóverk við undirleik rafhljóða. Efnisskráin er samansett af verkum eftir Clarence Barlow, Halldór Smárason, Einojuhani Rautavaara og Toru Takemitsu. Verk japanska tónskáldsins Takemitsu, Towards the sea, var samið fyrir Greenpeace og herferð þeirra til björgunar hvala en það er eitt allra stærsta tónverk sem samið hefur verið fyrir gítar og flautu og er það er byggt á skáldsögunni Moby Dick eftir Melville. Á tónleikunum skiptir Gunnlaugur á milli þriggja gítara og Hafdís leikur á þrjár flautur; alt flautu, þverflautu og pikkaló flautu.

Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist frá 20. og 21. öldinni þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Nafn tónleikaraðarinnar skírskotar til smæstu merkingargreinandi hljóðeininga tungumála, grunneininga sem púsla má ólíkt saman svo úr verði tilraun til merkingar. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu.



Viewing all articles
Browse latest Browse all 2696