Jakob Bro er danskur gítarleikari og tónskáld, þríleikur hans Balladeering-Time-December hlaut tilnefningu til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs vorið 2014. Við tilnefninguna fæddist hugmynd um að safna saman því úrvalsliði sem kom að verkinu, leggja land undir fót og halda þangað sem innblástur hans var uppruninn, á Norðurlöndin.
Tónleikarnir á Íslandi eru fyrstu tónleikarnir af sex á Norðurlandaflakki þeirra en héðan fer hópurinn til Danmerkur, Færeyja, Noregs, Grænlands og enda svo í Kaupmannahöfn.
Það er stjörnum prýddur hópur sem kemur fram með Jakob Bro eða þeir Lee Konitz, Bill Frisell og Thomas Morgan. Fyrir þá sem ekki þekkja til hefur Lee Konitz t.d. unnið með mönnum eins og Miles Davis og Stan Getz en Bill Frisell hlaut Grammy verðlaun árið 2005 og var einnig tilnefndur til þeirra árin 2003, 2008 og 2009.
Það er með mikilli ánægju og tilhlökkun sem við kynnum þennan viðburð, enda ekki á hverjum degi sem gefst tækifæri til að berja augum slíkar goðsagnir í alþjóðlega jazz heiminum hér í Reykjavík. Miðafjöldi er takmarkaður og við hvetjum ykkur því til að tryggja ykkur miða sem fyrst.