Kvennakórinn Katla og Bartónar, karlakór Kaffibarsins, blása til jólastórtónleika í Austurbæ þann 18. desember kl.20. Tónleikarnir eru til styrktar Hugarafli, sem hefur undanfarin 11 ár unnið ötullega að því að bæta okkar geðheilbrigðiskerfi og stuðlað að breyttu viðhorfi almennings til geðheilbrigðis, með virðingu og mannréttindi að leiðarljósi.
Bartónar og Kötlur sameina söngkrafta sína og flytja jólalög úr ýmsum áttum, þjóðleg og óþjóðleg, hæg og hröð, há og lág, súr og sæt, mjúk og hörð. Taumlaus jólagleði, jólakötturinn lætur sig ekki vanta og það er aldrei að vita nema einhverjir jólasveinar láti sjá sig.