ÓPERUDRAUGARNIR
Kristján, Garðar og Gissur
Þrír af vinsælustu tenórum landsins, Kristján Jóhannsson, Garðar Thór Cortes og Gissur Páll Gissurarson slá upp mikilli tónlistarveislu í Hörpu á nýársdag og 2. janúar og í Hofi á Akureyri 3. janúar. Stórsöngvararnir þrír kalla sig Óperudraugana og munu flytja klassískar söngperlur frá ýmsum tímum og óperu aríur við allra hæfi.
Kristján er kominn heim eftir áralanga dvöl á Ítalíu og hefur sungið í öllum helstu óperuhúsum heims og má þar nefna La Scala í Mílanó. Garðar hefur átt farsælan feril og dugir þar að nefna tilnefningu hans til Bresku tónlistarverðlaunanna fyrir plötuna Cortes. Gissur Páll hefur unnið Íslensku tónlistarverðlaunin og sungið í flestum óperuhúsum Evrópu.
,,Söngdagskráin inniheldur mikið af okkar uppáhalds aríum og klassísku sönglögum. Við tökum smá Kaldalóns og jafnvel einhver söngleikjalög,” segir Gissur Páll Gissurarson sem er einn Íslands tenóranna. Þetta er spennandi verkefni og það verður mjög gaman að syngja með Kristjáni og Garðari um áramótin og fagna nýju ári. Við höfum áður sungið saman sem Óperudraugarnir og það heppnaðist afar vel. Nú snúum við aftur eða eigum við að segja göngum aftur,” segir Gissur Páll.