Hróður Ólafs Arnalds hefur vaxið jafnt og þétt frá því að hann gaf út sína fyrstu plötu árið 2007 og má ætla að hann skipi hóp efnilegustu tónskálda heims.
Ólafur hefur verið afkastamikill síðustu ár og ekki síst á sviði kvikmyndatónlistar. Tónlist eftir hann hefur hljómað í kvikmyndum eins og The Hunger Games og Looper og sjónvarpsþáttum eins og So You Think You Can Dance og Broadchurch en Ólafur vann til hinna virtu BAFTA verðlauna fyrir þá síðarnefndu.
Síðasta sólóplata Ólafs, “For Now I am Winter”, kom út árið 2013 á vegum Universal útgáfunnar og gætir þar áhrifa úr ólíkum áttum; en með því að blanda saman klassík, poppi og elektróník verður til einstök smíði.